„Erlendu“ ólöglegu lánin

Tveir mjög sögulegir dómar féllu í Hæstarétti þann 16. júní sl. Í báðum þessum málum var ágreiningur milli lántakenda „erlendra“ bílalána og lánafyrirtækjanna um hvort þessi lán væru erlend eða innlend og þá hvort lántakendum bæri að greiða afborganir sem verðtryggðar væru með gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslenski krónunni.

   Eins og margir muna féllu dómar í þessum málum í Héraðsdómi Reykjavíkur á síðasta ári hvor á sinn veg. Annar dómurinn féll á þann veg að um erlendt lán væri í raun að ræða, hinn dómurinn taldi að um íslenskt lán væri að ræða. Báðum málunum var áfrýjað til Hæstaréttar. Lánafyrirtækið Lýsing sem vildi innheimta sitt lán með gengistryggingarálagi áfrýjaði dómnum um að lánið væri venjulegt íslenskt lán en gengisstryggt.

Lántakandi áfrýjaði hins vegar dómnum um að lánið væri í raun löglegt erlent lán, tekið í erlendri mynt.

   Dóma Hæstaréttar í þessum tveimur málum hefur verið beðið með mikilli óþreyju eins og vænta má þar sem réttaróvissan sú sem skapaðist með fyrrnefndum tveimur dómum undirréttar sem gengu í sína hverja áttina, var orðin óþolandi.

Um hvað snerist málið?

  Viðfangsefni Hæstaréttar var í fyrsta lagi það að skera úr um hvort lántakendur hefðu tekið lán í erlendum myntum eða í íslenskum krónum.

   Í öðru lagi þurfti svo að skera úr um það hvort „erlendu“ lánin væru bara rétt og slétt íslensk lán, verðtryggð með gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu, en eins og dómar undirréttar í sína hvora áttina eru til vitnis um var það álitamál.

Í þriðja lagi þurfti að fá úr því skorið hvort löglegt væri að verðtryggja innlendar lánaskuldbindingar með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu. Er slík verðtrygging lögleg eða ekki?

   Niðurstaða Hæstaréttar er skýr: Lánin sem dómarnir tveir snúast um voru tekin í íslenskum krónum og afborganir af þeim voru innheimtar í krónum. Þau voru því íslensk lán og gengistryggingin var ólögleg samkvæmt lögum um vexti og verðbætur.

Innlend lán, ekki erlend

   Í afar stuttu máli má segja að Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að bílalánin í umræddum málum hafi ekki verið erlend lán heldur íslensk lán, þ.e. skuldbindingar í íslenskum krónum.

   Hæstiréttur slær því jafnframt föstu að óheimilt sé að binda slíkar skuldbindingar við gengi erlendra mynta. Hæstiréttur taldi því að ákvæði umræddra samninga um gengistryggingu væru ólögmæt og þar með ekki skuldbindandi fyrir lántakendur í málunum. Lántakendur í málunum tveimur voru því sýknaðir af kröfum fjármálafyrirtækjanna SP-Fjármögnunar hf. og Lýsingar hf.

Hvað þá með mitt lán?

   Fyrst lántakendur í umræddum málum sem dómar Hæstaréttar taka til, eru sýknaðir af kröfum fjármálafyrirtækjanna um að greiða afborganir sem verðtryggðar eru með gengi erlendu gjaldmiðlanna í myntkörfunni,  þá spyrja nú aðrir lántakendur, -hvað með mitt lán þá? Get ég ekki bara hætt að borga af þessum drápsklyfjum. Gildir ekki dómurinn fyrir mig líka og mitt lán?

   Því miður er þetta ekki svo. Sýknan nær einungis til þessara tilteknu lántakenda, ekki annarra. En annað mál er að Hæstiréttur hefur dæmt gengistryggingu lánafyrirtækjanna ólöglega gagnvart ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu af innlendum lánaskuldbindingum. Brot hefur verið framið, auðvitað líka gagnvart öðrum lántakendum með samskonar lánasamninga á bakinu.

   Með dómunum 16. júní hefur Hæstiréttur fengið öðrum brotaþolum öflugt vopn í hendur vissulega. En þeir verða sjálfir að beita því af skynsemi og sækja rétt sinn.

   Þessvegna er það eindregið ráð FÍB til þeirra að lesa mjög vandlega yfir sína lánasamninga og bera ákvæði þeirra saman við dómsniðurstöður Hæstaréttar. Hægt er að hlaða dómunum niður af heimasíðu Hæstaréttar og flestra Netfjölmiðla og prenta þá síðan út.

Berið síðan niðurstöður Hæstaréttar saman við ykkar eigin samninga til að reyna að átta ykkur á hvort  og að hve miklu leyti dómsforsendur eiga við ykkar samning.

   Mikilvægt atriði í þessu er það að ef Hæstiréttur hefði talið að í raun hefði verið um lán í erlendri mynt að ræða þá virðist sem niðurstaða hans hefði orðið öfug við það sem hún varð. Miklu skiptir því að átta sig á því í hverju tilviki hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða ekki

Íslenskt eða ekki!

   Af niðurstöðu Hæstaréttar má ráða að úrslitum ræður hvort um var að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum, þ.e. að lán í íslenskum krónum en ekki erlendri mynt. Þessu kann að vera mismunandi farið en líklega eru flestir myntkörfusamningar félagsmanna FÍB sambærilegir þeim samningum sem Hæstiréttur fjallaði um í dómum sínum 16. júní sl.

   Félagsmenn FÍB skal hér eindregið ráðlagt að skoða einstök ákvæði samninga sinna og bera saman við þá aðferðarfræði sem Hæstiréttur virðist beita við til þess að meta hvort skuldbinding sé í raun og veru í íslenskum krónum.

Hætta að borga?

   Á ég að hætta að borga af láninu mínu?, spyrja nú velflestir skuldarar bílalána efalaust. Að svo stöddu getur FÍB ekki svarað því hvort rétt sé eða skynsamlegt að félagsmenn hætti því að greiða af lánum sínum. Að mati félagsins er hyggilegt að sýna biðlund fyrst um sinn og kanna hver viðbrögð fjármálafyrirtækja verða, en þau kunna að verða mismunandi eftir hverju fyrirtæki um sig. Gera má ráð fyrir því að bæði lánafyrirtækin og stjórnvöld þurfi nokkra daga til að  komast að einhverri vitrænni niðurstöðu um viðbrögð. Skynsamlegt er því að nota tímann fyrst til að skoða eigin samning rækilega, þaullesa hann og hafa einstök ákvæðí hans á takteinum. 

Á ég endurkröfu?

   -Á ég endurkröfu á fjármálafyrirtækið vegna þess að ég hef greitt of mikið?- Þetta er ein þeirra spurninga sem það fólk sem hefur lengi greitt af bílasamningum sínum og er jafnvel búið að greiða þá upp í topp, eða þeir sem hafa verið vörslusviptir bílunum vegna vanskila.

   Eflaust eiga nú margir endurkröfu á fjármálafyrirtækið sem þeir hafa samið við. Í einhverjum tilvikum kemur til greina að félagsmaður skuldajafni kröfu sinni á hendur fjármálafyrirtækinu þannig að skuldin við fyrirtækið lækki.

   Í öðrum tilvikum er hugsanlegt að þeir sem greitt hafa upp skuldir sínar eigi rétt til einhverrar endurgreiðslu frá fjármálafyrirtækinu.

Er óvissunni eytt?

   Því miður er það svo að óvissu um erlendu“ lánin og afborganir af þeim hefur síður en svo verið eytt með dómum Hæstaréttar þann 16. júní sl.

   Augljóst má vera að FÍB hefði kosið að Hæstiréttur hefði  tjáð sig með skýrari hætti um ýmislegt sem að þessum málum lýtur, m.a. því hvernig haga beri uppgjöri gengistryggðra samninga. Það gerir hann ekki enda má segja að það sé ekki hans að gera það, heldur verði bæði hin brotlegu lánafyrirtæki og sérstaklega þó stjórnvöld, bæði ríkisstjórn og alþingi að móta og síðan að ná almennri sátt um einhverskonar allsherjar reglu um hvernig með þessi mál skuli nú farið og að brotaþolarnir fái nú loks viðunandi og sanngjarna lausn sinna mála. Þeir eiga það vissulega inni hjá bæði löggjafarvaldinu og framkvæmdavaldinu.

Hvað er til ráða?

   Í fræðigrein dr. Eyvindar G. Gunnarssonar  lektors við lagadeild HÍ sem birtist fyrr á þessu ári í Úlfljóti, velti hann þeim möguleika upp að dómstólar gætu, með vísan til 36. gr. samningalaga, kveðið svo á um að samningi yrði breytt þannig að skuldbinding yrði verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs (Úlfljótur 2009, bls. 346). Í sömu grein bendir Eyvindur á að ekki væri útilokað að dómstólar myndu styðjast við 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu við ákvörðun vaxta við uppgjör slíks samnings.

   Miðað við stöðu þessara mála nú er varla of mikið að fara þess á leit að stjórnvöld komið að málinu og leggi einhverjar línur að úrlausn þess. FÍB telur það vera skýlaust í verkahring stjórnvalda að þau hafi eftirlit með og tryggi að réttum landslögum, eins og þau hafa verið túlkuð af Hæstarétti Íslands, sé framfylgt í landinu.

   Loks má geta þess að fleiri mál bíða nú meðferðar dómstóla en vonandi munu fleiri dómar auka skýrleika og draga úr réttaróvissu á þessu sviði.