ESC stöðugleikabúnað í alla bíla fyrir 2012

http://www.fib.is/myndir/Max-mosley.jpg
Max Mosley forseti FIA.

„Evrópusambandið verður að láta hendur standa fram úr ermum ef það ætlar að ná því yfirlýsta markmiði sínu allir nýir bílar verði með ESC stöðugleikabúnaði fyrir árið 2012,“ sagði Max Mosley, forseti FIA – alþjóðasamtaka bifreiðaeigendafélaga og akstursíþróttafélaga, þegar hann ávarpaði Evrópuþingið í Strasbourg fyrr í dag.

Max Mosley skoraði jafnframt á Evrópuráðið að virða eigin loforð um að flýta sem mest útbreiðslu ESC stöðugleikabúnaðar í bíla og stuðla að því að búnaðurinn verði sjálfsagður staðalbúnaður í öllum nýjum bílum sem seldir eru í Evrópu.

Hann sagði rannsóknir í bæði Evrópu og Bandaríkjunum sýna að ESC stöðugleikabúnaður fækkar svonefndum eins bíls slysum, þ.e. útafakstri, veltum og árekstrum við fasta hluti við vegi um hvorki meira né minna en 35 prósent. Engu að síður er þessi búnaður í minna en helmingi nýrra bíla sem seldir eru í Evrópu.http://www.fib.is/myndir/ESP-hlutfall.jpg

Max Mosley sagði að sérfræðingar í umferðaröryggismálum væru sammála um að ESC sé besti öryggisbbúnaður til bjargar mannslífum sem fram hefur komið í bílum síðan öryggisbeltin komu fram. En þrátt fyrir þessa vitneskju sé búnaðurinn yfirleitt einungis staðalbúnaður í dýrum lúxusbílum og vönduðum bílum. Á mörgum markaðssvæðum álfunnar sé búnaðurinn ýmist ófáanlegur eða fáanlegur einungis sem aukabúnaður í litlum og meðalstórum bílum. Þannig sé stærsti hlutinn af bílaflota Evrópu án þessa lífsnauðsynlega búnaðar og notendum meinaður aðgangur að þeirri lífsbjörg sem ESC stöðugleikabúnaðurinn er.

Í ávarpi sínu sagði Max Mosley síðan: „ESC stöðugleikabúnaður getur bjargað fjögur þúsund mannslífum á ári. Ef ætlunin er að ná því markmiði Evrópusambandsins að allir nýir bílar verði með ESC árið 2012 þá höfum við ekki efni á að bíða lengur. Það er verið að undirbúa regluverk um þetta mál um allan heim um þessar mundir og Evrópa getur ekki leyft sér að dragast aftur úr öðrum heimshlutum í því að innleiða öruggari bíla.

Stjórnvöld hafa þegar reynslu að því að beita skattalegum ívilnunum í því skyni að örva notkun tæknibúnaðar sem leiðir til umhverfismildari bíla. Engin ástæða er til að ætla annað en að þær aðferðir dugi einnig til að örva notkun búnaðar eins og ESC, sem kemur í veg fyrir dauða og örkuml,“ sagði Max Mosley forseti FIA á Evrópuþinginu í Strasbourg í dag.