ESP skrensvörn er jafn mikilvæg lífsvörn og bílbeltin

 The image “http://www.fib.is/myndir/Espmynd.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
ESP stöðugleikakerfi er mikilvægari öryggisbúnaður en áður var ætlað, samkvæmt nýrri sænskri rannsókn.
Ný rannsókn sænsku vegamálastofnunarinnar bendir til að rafeindastýrt stöðugleikakerfi í bílum, svonefnt ESP stöðugleikakerfi er álíka mikilvægt og bílbelti í því að forða líkamstjóni og dauða fólksins í bílnum. Þessi rannsókn gefur mun sterkari vísbendingar um gagnsemi stöðugleikabúnaðar en þær rannsóknir sem hingað til hafa verið gerðar.
Rannsóknin sem um ræðir leiðir í ljós að ESP minnkar líkur á alvarlegum meiðslum og dauða um um það bil 25%. Og í vetrarfæri minnkar ESP líkur á framanákeyrsluárekstrum, útafkeyrslum og veltum í snjó og á ís og í bleytu um 50%. Það er sama og bílbeltin gera ein og sér því að spennt bílbelti draga úr líkum á alvarlegum meiðslum og dauða um 50% miðað við að nota þau ekki. Þetta myndi þýða það að mati þeirra sem rannsóknina gerðu, að ef ESP væri í öllum bílum í Svíþjóð, þá myndu 80-100 færri farast árlega í bílslysum í landinu.
Þessar niðurstöður hafa orðið til þess að sænska vegamálastofnunin hefur komið boðum til sænsks almennings um að fólk kaupi ekki nýjan bíl nema í honum sé ESP kerfi. Sömuleiðis hefur verið send út tilmæli til söluaðila nýrra bíla að þeir selji ekki aðra bíla en þá sem eru með ESP kerfi.
Sænska vegamæalastofnunin rannsakaði fyrst árið 2003 gagnsemi ESP stöðugleikakerfis í bílum. Niðurstöður hennar sýndu ótvírætt fram á gagnsemi kerfisins. Síðan hefur bílum með ESP fjölgað mjög í Svíþjóð og eru niðurstöðurnar nú því taldar mun marktækari en þegar hlutfall ESP-búinna bíla var lægra.
Rannsóknin náði til umferðarslysatilfella þar sem 10 þúsund bílar komu við sögu. Um 8 þúsund bílanna voru án ESP en 2 þúsund með ESP.