ESP stöðugleikakerfi draga um 40% úr árekstrarhættu
01.12.2005
Max Mosley.
Á málþingi í Brussel í gær í tilefni af tíu ára afmæli EuroNCAP kom m.a. fram að mestallan þann áratug sem EuroNCAP hefur starfað hefur aðaláherslan verið á að verja fólkið sem í bílnum er. Starf EuroNCAP hefur borið þann mikla árangur að bílar eru í dag miklu betri en áður á þann hátt að þeir verja fólk margfalt betur en þeir hafa nokkru sinni getað áður, verði slys. Max Mosley forseti FIA, frumkvöðull að því að EuroNCAP var stofnað á sínum tíma, sagði að nú væru á sinn hátt tímamót í starfi stofnunarinnar. Nú væri komið að því að víkka út starfsemina í þá átt að forða því að slys verði en ekki einungis að leita leiða til að draga úr afleiðingum þeirra.
Max Mosley sagði að næsta verkefni framundan væri að innleiða og ýta á eftir notkun tæknibúnaðar sem kemur í veg fyrir slys. Slík tækni væri þegar til og ...„þess vegna er nauðsynlegt að ýta á eftir því að tækni sem fækkað getur slysum á evrópskum vegum verði almenn í bifreiðum.“
Það er ESP eða ESC stöðugleikabúnaður sem Max Mosley var hér að vitna til. Búnaðurinn er nú þegar orðinn talsvert algengur í nýjum bílum. ESP búnaðurinn er tölvubúnaður sem skynjar þegar bíll skrensar eða rennur til á vegi og grípur inn í aksturinn hjá ökumanni, leiðréttir mistök sem hann kann að gera og stöðvar skrensið. Þetta gerir ESP búnaðurinn með því að grípa inn í ABS hemlakerfi bílsins og bensíngjöf. Hann hægir á vélinni, hemlar og slakar upp á hemluninni á hjólunum á víxl í því skyni að rétta bílinn af og hægja á honum þannig að ökumaður nær aftur valdi á akstrinum. Með þessu minnkar búnaðurinn stórlega líkur á að ökumaður missi algerlega stjórn á bílnum og árekstur verði eða bíllinn fari útaf og velt, hann renni á hlið framan á annan bíl sem á móti kemur, o.s.frv.
Max Mosley sagði að það sem upp úr stæði varðandi ESP/ESC kerfi sé hversu öflugt tæki það er til að forða slysum.en ekki einungis drægi úr afleiðingum þeirra. Eftir því sem ESP/ESC kerfi verða algengari í bílum, þeim mun færri slys verða á vegum sem þarf að hreinsa upp, útköllum lögreglu og sjúkrabíla vegna slysa fækkar og sjúkrahúsin þurfa að lækna færri slasaða og það þarf að gera við færri skemmdir á vegum og vegriðum, Öll útgjöld samfélagsins og einstaklinga vegna slysa minnka eftir því sem stöðugleikakerfi verða algengari í bílum.
„Þessir kostir ESP kerfanna hafa verið staðfestir í rannsóknum sem gerðar hafa verið af bílaiðnaðinum sjálfum sem og óháðum aðilum í Evrópu, í Japan og Bandaríkjunum. Þær staðfesta að ESP kerfin draga úr líkum á árekstrum um 30-40%.
Þessvegna kemur það óþægilega á óvart hversu ótrúlega seint það gengur að innleiða þennan mikilvirka öryggisbúnað í sumum löndum Evrópusambandsins. Á síðasta ári var stöðugleikabúnaður í einungis 24% nýskráðra bíla á Ítalíu. Í Bretlandi var hlutfall bíla með stöðugleikabúnað 29% og í Frakklandi var það 39%. Einungis í Þýskalandi og Svíþjóð náðist það sem kalla má lágmarks öryggismörk, sem er ESP/ESC kerfi í 60% bíla. Í nýju Evrópusambandslöndunum þar sem umferðaröryggi er verulega áfátt er ástandið mjög slæmt því einungis lítið brot nýrra bíla er með stöðugleikabúnaði, Sagði Max Mosley forseti FIA á málþinginu í Brussel í gær.
ESP stöðugleikakerfi geta forðað 40% slysa af þessu tagi. (Sviðsett mynd frá SAAB).