Euro NCAP 20 ára – tímamót í sögu umferðaröryggis
Fyrstu árekstrarpróf Euro NCAP voru framkvæmd í þessari viku fyrir 20 árum síðan. Á þessum 20 árum hefur Euro NCAP gefið út og birt yfir 630 öryggisúttektir, árekstrarprófað um 1.800 bíla. Samanlagt hefur verið varið yfir 160 milljónum Evra í verkefnið með það að markmiði að auka öryggi bifreiða í umferð. Sannanlega hafa öryggisúttektir Euro NCAP stóraukið öryggi vegfarenda og áætlað er að yfir 78.000 mannslíf hafi bjargast vegna öryggisþróunar ökutækja á liðnum 20 árum.
Fyrstu árekstrarprófin leiddu í ljós alvarlega öryggisbresti í söluhæstu fjölskyldubílum Evrópu. Þessar niðurstöður höfðu fljótlega veruleg áhrif á markaðinn. Bílaframleiðendur voru þvingaðir til að fara í grundvallar naflaskoðun á hönnun ökutækja með öryggi og björgun mannslífa í fyrirrúmi. Markmiðið var og er að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum. Í dag eru 9 af hverjum 10 nýjum bílum á Evrópumarkaði árekstrarprófaðir og með öryggiseinkunn frá Euro NCAP.
Niðurstöður nýlegra prófana á áresktrarvörnum tveggja fjölskyldubíla sem byggðir voru með 20 ára millibili sýna vel þessa jákvæðu þróun í öryggishönnun ökutækja. Öryggisbúnaður og tækni sem ekki var til staðar eða í besta falli valbúnaður er nú staðalbúnaður í öllum nýjum bílum á Evrópumarkaði. Þetta á við um öryggispúða fyrir ökumenn og farþega, öryggispúða í hliðum, öryggisbelta áminningu og rafræna stöðuleikastýringu.
Max Mosley fyrrum forseti FIA var fyrsti stjórnarformaður Euro NCAP og einnig Global NCAP. Hann var aðalfyrirlesari á Umferðarþingi Umferðarráðs í nóvember 2004 og fjallaði þar m.a. um Euro NCAP og jákvæð áhrif verkefnisins á umferðaröryggi. Í tilefni afmælis Euro NCAP sagði Max: ,,Nú eru tuttugu ár síðan farið var af stað með verkefnið sem bílaframleiðendur höfnuðu alfarið í upphafi. Það var mjög umdeilt og margir töldu öryggismarkmiðin óraunhæf. Euro NCAP er í dag hluti af almennum kröfum og viðmiðunum markaðarins. Komið hefur verið í veg fyrir þúsundir banaslysa, öryggiskröfur neytenda eru miklar, framleiðendur keppast um að ná sem bestum árangri og niðurstöðum í árekstrarprófunum og öryggisstaðlar ökutækja eru í stöðugri framþróun.“
Michiel van Ratingen |
,,Við erum mjög stolt af því eftir 20 ára starf í fararbroddi umferðaröryggismála að hafa skilað af okkur stórtækum framförum í öryggi ökutækja. Euro NCAP hefur hjálpað til við það að Evrópa er með lægstu tíðni banaslysa í umferðinni í heiminum.“ |
Framkvæmdastjóri Euro NCAP, Michiel van Ratingen sagði m.a. í tilefni af þessum 20 ára tímamótum að Euro NCAP hefði uppfrætt milljónir neytenda og fært þeim þekkingu og traust til að velja bíla með öryggi að leiðarljósi. ,,Við erum mjög stolt af því eftir 20 ára starf í fararbroddi umferðaröryggismála að hafa skilað af okkur stórtækum framförum í öryggi ökutækja. Euro NCAP hefur hjálpað til við það að Evrópa er með lægstu tíðni banaslysa í umferðinni í heiminum. Við viljum tryggja að vegir Evrópu verði enn öruggari á næstu 20 árum bæði fyrir fólkið í bílnum og alla aðra vegfarendur. Öryggisrannsóknir okkar í dag eru mun umfangsmeiri en áður og þær munu verða enn víðtækari á næstunni. Á næsta ári verður búnaður, sem greinir og kemur í veg fyrir árekstra við hjólreiðafólk, tekinn út og prófaður og einnig er verið að undirbúa mjög krefjandi aðgerðaráætlanir fyrir árin 2020 til 2025.“
Fyrstu niðurstöður árekstraprófunar á vegum Euro NCAP voru gefnar út 4. febrúar 1997. Verkefnið var sett á legg af FIA, alþjóðasamtökum bifreiðaeigendafélaga og naut stuðnings stjórnvalda í Bretlandi, Svíþjóð og Hollandi. Fram að því höfðu bílaframleiðendur um áraraðir aðeins þurft að uppfylla einfaldar grunnkröfur um árekstravörn nýrra bíla. Þær niðurstöður voru ekki aðgengilegar almenningi og það var ómögulegt fyrir neytendur að bera saman öryggi þeirra bíla sem voru á markaðnum. Starf Euro NCAP hefur lyft grettistaki í öryggismálum umferðarinnar og komið í veg fyrir fjölda alvarlegra slysa og banaslysa á liðnum 20 árum.