Euro NCAP árekstursprófanir til Suður-Ameríku
EuroNCAP árekstrarprófanir á bílum eru nú hafnar í S. Ameríku undir nafninu Latin NCAP. Tvær prófunarstöðvar hafa verið settar upp í álfunni og er allt verklag og aðferðafræði nákvæmlega eins og hjá EuroNCAP í Evrópu. Þegar er búið að árekstursprófa níu vinsæla og algenga bíla í S. Ameríku og er árangurinn vægt sagt ógnvekjandi. Sá bíll sem bestur reyndist náði fjórum stjörnum af fimm fyrir vernd fullorðinna en aðrir minna, jafnvel enga einustu stjörnu. Fyrir vernd barna fengu átta af bílunum tvær stjörnur og einn eina stjörnu.
Bílarnir sem prófaðir voru í þessari fyrstu prófunarlotu Latin NCAP er flestir meðal mest seldu bilanna í álfunni. Til að fá samanburð milli þeirra og sambærilegra bíla sem áður hafa verið árekstursprófaðir í Evrópu voru hafði með í prófuninni Toyota Corolla og Chevrolet Meriva (gamli Opel Meriva).
Öryggisbúnaður í nýjum og nýlegum bílum í S. Ameríku er yfirleitt fátæklegri en í bílum í Evrópu og margir þeirra eru eldri gerðir bíla sem enn eru byggðir í S. Ameríku þótt framleiðslu og sölu á þeim í Evrópu hafi verið hætt. Margir þessara bíla eru ekki einu sinni með einföldustu loftpúða hvað þá annan mikilvægan búnað eins og ESC skrikvörn. Margar vinsælustu tegundirnar og gerðirnar eru að vísu fáanlegar með sérpöntuðum loftpúðum. Því var ákveðið hjá LatinNCAP að prófa nokkra vinsælustu bíla álfunnar bæði með og án loftpúða.
Bílamarkaðurinn í S.Ameríku og ríkjum Karíbahafsins er ört vaxandi og stöðugt fleiri framleiðendur kjósa að reisa bílaverksmiðjur í þessum heimshluta. Umferðin vex sömuleiðis mjög og alvarlegum umferðarslysum fjölgar sömuleiðis ört og óöruggir og vanbúnir bílar bæta þar að sjálfsögðu ekki úr skák. Stofnun Latin NCAP er því mjög mikilsvert skref í þá átt að upplýsa bílakaupendur um öryggi bíla og verður örugglega hvatning til bílaframleiðenda að kasta ekki höndum til bíla sem ætlaðir eru íbúum þessa heimshluta.
Það eru alþjóðasamtök bifreiðaeigendafélaga; FIA ásamt nokkrum s.amerískum bifreiðaeigendafélögum sem saman standa að stofnun Latin NCAP en höfuðstöðvarnar eru í Montevideo í Uruquay. Fjárhagslegur bakhjarl er þróunarbanki Ameríkuálfu, The Inter American Development Bank. Stofnun Latin NCAP tengist ennfremur tíu ára verkefni Sameinuðu þjóðanna um að efla umferðaröryggi á vegum heimsins. Markmið verkefnisins er að forða fimm milljónum manna frá því að láta lífið í umferðinni 2011-2020.
Peugeot 207 sem löngu er hætt að framleiða í Evrópu er byggður í S. Ameríku og er meðal mest seldu bíla þar. Engir loftpúðar eru í þessum gamla (en nýja) bíl og árangur hans í árekstursprófinu var þar eftir, eins og vænta mátti. Bíllinn náði þó einni stjörnu. Þá sögu er ekki einu sinni að segja af hinum kínverska Geely CK 1 sem heldur er ekki með loftpúðum í S. Ameríku. Hann hlaut enga einustu stjörnu. Það kom prófunarmönnum æði undarlega fyrir sjónir að í þessum bíl sem ekki er einn einasti loftpúði, skuli samt vera rofi til að aftengja loftpúðann við framsætið.
Stjörnugjöfin er annars vísbending um það hversu vel bíllinn verndar börn og fullorðna í bílnum í framaná-árekstrum og hliðarárekstrum. Toyota Corolla var eini bíllinn í prófunarlotunni sem var með hliðarloftpúða sem skýrir hinn mikla mun á Corolla og öðrum bílum með loftpúðum.
Árangurinn var annars sem hér segir:
Teg./gerð. Vernd fullorðinna Vernd barna
Geely CK 1, Án loftpúða: 0 (engar) stjörnur 2 stjörnur
Fiat Palio ELX, Án loftpúða: 1 (en) stjarna, 2 stjörnur
Fiat Palio ELX, 2 loftpúðar: 3 stjörnur, 2 stjörnur
VW Gol Trend, Án loftpúða: 1 stjarna, 2 stjörnur
VW Gol Trend, 2 loftpúðar: 3 stjörnur, 2 stjörnur
Peugeot 207 5d: Án loftpúða: 1 stjarna, 2 stjörnur
Peugeot 207 5d: 2 loftpúðar: 2 stjörnur, 2 stjörnur
Chevrolet Meriva GL: 2 loftpúðar: 3 stjörnurr, 2 stjörnur
Toyota Corolla XEI: 4 loftpúðar: 4 stjörnur, 1 stjarna