EuroRAP-úttekt á vegakerfinu áfram
Kristján Möller samgönguráðherra fyrir miðju. Th. er Karl Ragnars forstjóri Umferðarstofu og tv. er Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB.
FÍB tók í gær við nýjum EuroRAP bíl í húsakynnum bílaumboðsins Öskju. Um leið og nýi bíllinn var afhentur var undirritaður nýr samningur milli FÍB og samgönguráðherra fyrir hönd Umferðarstofu og Vegagerðarinnar um áframhaldandi skoðun á íslenska vegakerfinu samkvæmt stöðlum EuroRAP. Nýi EuroRAP bíllinn er af gerðinni Mercedes Benz B. Kaup og rekstur bílsins, eins og eldri bílsins, er fjármagnað af Öskju, Good Year á Íslandi, N1, Vátryggingafélagi Íslands, Lýsingu og Samskipum.
EuroRap er stofnun í eigu bifreiðaeigendafélaga, systurfélaga FÍB í 25 löndum. Markmið hennar er að skoða öryggisþætti vega út frá stöðluðum aðferðum þannig að öryggi vega er metið á nákvæmlega sama hátt allsstaðar. Niðurstöðurnar verða síðan tæki til endurbóta sem og endur- og nýhönnunar sem miðast að meira öryggi fyrir vegfarendur. Jafnframt getur almenningur betur gert sér grein fyrir gæðum vega.
Hér á landi hefur samgönguráðuneytið stutt dyggilega við verkefnið ásamt fyrirtækjunum sem kosta kaup og úthald mælingabílsins og fyrr eru nefnd.
Bifreiðaeigendafélög í hverju landi fyrir sig annast framkvæmd EuroRAP vegaskoðunar og hér á landi er það FÍB. Félagið hefur þegar mælt og tekið út um 550 kílómetra og á þessu ári verður á annað þúsund kílómetrar skoðaðir. Meðal vega sem skoðaðir verða eru það sem eftir er af Hringveginum, þjóðvegi nr. 1, Djúpvegur, vegarkaflar á Snæfellsnesi og nokkar vinsælar ferðamannaleiðir.
Kristján L. Möller samgönguráðherra sagði m.a. við undirritun samningsins í gær að úttektir sem þessar veiti mikilsverða vitneskju og það væri vitað að vegakerfið þarfnaðist víða úrbóta og ekki síst væri það næsta umhverfi veganna. Mikilvægt væri að taka niðurstöður úttektarinnar alvarlega og nýta þannig þá reynslu og þekkingu sem aflað væri. „Þannig fáum við batnandi vegakerfi. Um leið skulum við minnast ábyrgðar okkar sem ökumanna, hún minnkar ekkert þótt vegakerfið sé gott,“ sagði samgönguráðherra.