Evrópa er mesta bílaheimsálfan

http://www.fib.is/myndir/Samsetning.jpg
Úr samsetningarverksmiðju Volkswagen í Dresden í Þýskalandi.

Evrópa er sem heild stærsti bílaframleiðandi heims. Í álfunni eru samtals 250 bílaverksmiðjur þar sem starfa 2,3 milljónir manns. Auk þess vinna 10 milljón manns í Evrópu við störf sem tengjast bílaiðnaðinum og bílum.

Evrópsku bílaverksmiðjurnar 250 framleiða yfir 18,5 milljón ökutæki ár hvert. Inni í þeirri tölu eru 32 prósent allra fólksbíla sem framleiddir eru í heiminum árlega.

Meirihluti evrópsku bílaverksmiðjanna eða um 170 þeirra eru í eigu 14 stærstu evrópsku bílaframleiðslufyrirtækjanna sem öll eru innan ACEA – samtaka bílaframleiðenda í Evrópu. Þau eru BMW, DAF, Daimler, Fiat, Ford, GM, MAN, Porsche, PSA Peugeot - Citroen, Renault, Scania, Volvo og Volkswagen AG. Þessi fyrirtæki framleiða 90 prósent af þeim ökutækjum  sem framleidd eru í Evrópu samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu ACEA sem nefnist - ACEA’s Index of Automotive Production & Assembly Sites in Europe, 2004).

Þau 10 prósent sem út af standa eru framleidd af ýmsum smærri sérhæfðum verksmiðjum eða verktökuverksmiðjum eða þá í verksmiðjum sem eru sem eru í eigu japanskra framleiðenda og standa utan ACEA.

Bílaframleiðslan er dreifð víða um álfuna. Flestar bílaverksmiðjur eru þó í Þýskalandi eða 36. 32 bílaverksmiðjur eru í Bretlandi, 29 á Ítalíu og 25 í Frakklandi.

Í Mið og Austur-Evrópu eru flestar bílaverksmiðjur í Póllandi, Tékklandi og Rússlandi, eða fleiri en 10 í hverju þessara landa um sig.