Evrópusamtök um „heimagert“ eldsneyti

http://www.fib.is/myndir/Synthetic.jpg
Unnið er að stofnun nýrra samtaka sem vilja vinna að því að gera Evrópu óháða olíuframleiðsluríkjunum og gera Evrópu sjálfbæra hvað varðar eldsneyti fyrir bíla og farartæki. Eldsneytið sjálft vilja þau að verði framleitt úr tiltæku hráefni, eins og bæði jarðgasi og metangasi, kolum og lífrænum efnum eins og t.d. hálmi. Samtökin munu nefnast ASFE sem er skammstöfun fyrir Alliance of Synthetic Fuels in Europe. Meðal þeirra samtaka og fyrirtækja sem standa að stofnun samtakanna má nefna DaimlerChrysler, Renault, Royal Dutch Shell, Sasol Chevron og Volkswagen.

Í frétt sem stofnendurnir sendu frá sér í síðustu viku segir að tilbúið eldsneyti (Synthetic) sé lykill að hreinna og minna mengandi eldsneyti. „Með tilbúnu eldsneyti getum við í einu vetfangi dregið stórlega úr mengandi útblæstri og með bættri tækni mun draga enn frekar úr mengun,“ segir George Couvaras forstjóri Sasol Chevron olíufélagsins. Rob Routs forstjóri Royal Dutch Shell tekur í sama streng og segir í frétt undirbúningshópsins að með því að framleiða fljótandi eldsneyti úr gasi og lífmassa verði Evrópa miklu minna háð jarðolíunni og því eldsneyti sem unnið er úr henni. Tilbúna eldsneytið verði þannig til þess að brúa á hagkvæman hátt bilið frá jarðolíueldsneyti yfir í mengunarlausa endurnýjanlega orku framtíðarinnar.
Tilbúið eldsneyti, ekki síst bensín, er ekkert nýtt því að í heimsstyrjöldinni 1939-1945 framleiddu Þjóðverjar eldsneyti í stórum stíl á stríðsfarartæki sín. Hráefnið sem þeir notuðu var einkum kol.

Það tilbúna eldsneyti sem nú er verið að tala um að framleiða í enn stærri stíl en nokkru sinni áður, er algerlega brennisteinslaust og framleitt með svonefndri Fischer Tropsch aðferð úr gasi (GTL), kolum (CTL) eða lífmassa (BTL). GTL aðferðin er talin hagkvæmust og er enn sem komið er algengust og í mestri sókn. Allmargar framleiðslustöðvar eru nú í byggingu og framleiðslugetan mun fyrirsjáanlega aukast margfalt á þessu ári og næstu árum. BTL aðferðin (framleiðsla úr lífmassa) er skemmst á veg komin, þótt talsverð eldsneytisframleiðsla eigi sér vissulega stað, ekki síst í Danmörku og Svíþjóð.

Útblástur gróðurhúsalofttegundarinnar koltvíildis frá tilbúnu eldsneyti úr gasi og kolum er talinn sambærilegur við eldsneyti sem nú er búið er til úr jarðolíu. Um 90% minna kemur af koltvíildi úr BTL eldsneytinu. Því er horft til þess að blanda BTL eldsneyti saman við bæði jarðefnaeldsneyti og GTL og CTL eldsneyti til að draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegundarinnar. En af bruna tilbúna eldsneytisins í bílum kemur hins vegar minna af öðrum mengunarefnum út úr útblástursrörinu en ef ekið er á jarðefnaeldsneyti – efnum eins og vetnisoxíðasamböndum, kolmónoxíði og vetnis-kolefnasamböndum.