Eyðir aðeins 2,3 l á hundraðið
Á bílasýningunni í Detroit sem hefst um næstu helgi, mun Volvo sýna hinn nýja tvíorkubíl, XC60. Enda þótt fjögurra strokka 280 hestafla túrbínu-bensínvélin og rafmótorinn geti skilað samtals 350 hestöflum út í drifhjólin og skutlað bílnum úr kyrrstöðu í hundraðið á 6,1 sekúndu, er bensíneyðslan uppgefin einungis 2,3 lítrar á hundraðið og CO2 útblásturinn einungis 53 grömm á kílómetrann. Auðvitað er þessi lága meðaleyðslutala miðuð við blandaðan akstur og háð því að menn muni eftir að stinga bílnum í samband við hleðslustraum þegar heim er komið að vinnudegi loknum. En samt - lág er hún fyrir 350 hestafla bíl.
Peter Mertens framkvæmdastjóri rannsókna- og þróunardeildar Volvo segir í samtali við Auto Motor & Sport í Svíþjóð að nú sé loksins runninn upp sá tími að menn geti hætt að telja vélastrokka eða sýlindra. Að einbeita sér að fjögurra strokka vélum eins og Volvo gerir nú, sé besta leiðin til að draga með skjótum hætti úr CO2 losun og bensíneyðslu bíla og það án þess að taka frá bílakaupendum ánægjuna og nautnina sem fylgir því að aka aflmiklum afbragðs akstursbílum.
XC60 Volvóinn er ennþá á hugmyndar- og tilraunastigi en frumsýningin í Detroit er ekki tilviljun. Volvómenn vilja með henni endurheimta þá stöðu á hinum risastóra Bandaríkjamarkaði sem Volvóbílar höfðu þar fyrir áratug. Og bíll eins og XC60 er einmitt hárrétti bíllinn fyrir Bandaríkjamarkaðinn að mati forstjórans, Stefan Jacoby. Tæknilega sé bíllinn einfaldlega snilldarlegur og algerlega einstakur. Hann sé bæði afburða umhverfismildur bíll sem komist tíu kílómetra vegalengd á aðeins 0,23 lítrum af bensíni og allt að 45 kílómetra á rafmagni einvörðungu. En um leið sé XC60 rúmgóður hágæða 350 hestafla akstursbíll. Hann sé því búinn þrennum gerólíkum eiginleikum sem sjaldan, ef nokkru sinni áður hafi tekist að sameina í einum bíl.