Fá bíl fyrir að fara í „herraklippingu“
Í þeim tilgangi að hamla gegn fólksfjölgun hafa yfirvöld í sambandsríkinu Rajasthan í Indlandi komið á happadrætti sem virkar þannig að þeir karlmenn sem fara í „herraklippingu“ (ófrjósemisaðgerð) komast í happadrættispott og geta þar með átt von á að hreppa ýmsa vinninga eins og 21 tommu sjónvarp, ýmis heimilistæki og síðast en ekki síst fyrsta vinninginn sem er bíll af gerðinni Tata Nano. Frá þessu er greint í Times of India.
Tata Nano er ódýrasti nýi bíll veraldar. Frumkvæði að þessum bíl hafði forstjóri Tata bílaverksmiðjanna, Ratan Tata sem vildi með bílnum gefa fátæku fólki kost á að eignast bíl sem kostar svipað og sæmileg skellinaðra og vera þannig aðeins öruggari í umferðinni en á mótorhjóli. Það hafa verið talsverð vonbrigði fyrir aðstandendur Tata Nano bílsins hversu hann hefur selst. Sala á honum hefur verið langt undir væntingum.
Landlæknirinn í Jhunjhunu héraði í Rajasthan heitir Pratap Singh Dutter. Hann segir við Times of India að þeir karlmenn sem vilja taka þátt í þessu happadrætti þurfi að gangast undir ófrjósemisaðgerðina fyrir 30. september nk. Hugmyndin að þessu öllu sé komin úr efstu lögum stjórnkerfis Rajasthan. Í hans eigin umdæmi sé markmiðið það að fá 21 þúsund karlmenn til að gangast undir ófrjósemisaðgerð árlega og með happadrættinu nú vonist hann til að fá sex þúsund menn með í þetta fyrir 30. september. Lang flestir þeirra megi eiga von á vinningi þó ekki séu fleiri en einn bíll í boði sem fyrsti vinningur.
Í Jhunjhunu héraðinu búa 2,1 milljón manns og hefur fólksfjölgun þar verið 11,8 prósent sl. 10 ár.
Indverskar konur eiga að meðaltali 2,6 börn um ævina.