Færri aka á nöglum en fyrir ári
Hlutfall negldra og ónegldra dekkja er kannað mánaðarlega yfir veturinn hér á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsta talning vetrarins á hlutfalli milli nagladekkja og annarra dekkja fór fram 11. nóvember og reyndist hlutfallið skiptast þannig að 29,5% ökutækja var á negldum dekkjum og 70,5% var á öðrum dekkjum.
Hlutfall negldra dekkja er því töluvert lægra en á sama tíma í fyrra þegar það var 34,9% og enn lægra en fyrir tveimur árum þegar hlutfallið var 37,2%. Öruggast er að keyra ævinlega í samræmi við aðstæður.
Aðstæður til aksturs hafa verið nokkuð hagstæðar það sem af er vetri. Kalt hefur verið í veðri og hálku hefur gætt á götum snemma á morgnana. Veðurhorfur gera ráð fyrir norðaustanátt í dag, víða kaldi eða stinningskaldi. Léttskýjað vestantil á landinu, en dálítil snjókoma austanlands þegar kemur fram á daginn. Frost yfirleitt 0 til 8 stig, en það hlánar við suðaustur- og austurströndina.
Norðlægari vindur á morgun, skýjað veður og lítilsháttar snjókoma á Norður- og Austurlandi. Hiti um eða undir frostmarki. Hægur vindur á miðvikudag, bjart veður og kalt en þykknar upp vestanlands með vaxandi suðaustanátt síðdegis. Um kvöldið er búist við suðaustan hvassviðri eða stormi með slyddu eða rigningu um landið vestanvert.