Færri börn slasast í bílum

Undanfarin 15 ár hefur meiðslum á börnum í bílum fækkað um helming í Danmörku. Bein fylgni er milli fækkunarinnar og vaxandi notkunar á barnastólum og öðrum barnaöryggisbúnaði í bílunum samkvæmt niðurstöðum FDM, systurfélags FÍB í Danmörku. Árið 1990 létust eða slösuðust alvarlega um 80 börn í bílum í Danmörku. Það þótti óásættanlegt og því hófst átak sem fólst í því að brýna fyrir foreldrum og forráðamönnum barna að hafa þau aldrei laus í bílunum, heldur spennt í viðeigandi barnastóla og öryggisbúnað. Segja má að það átak standi enn og frá árinu 2006 hefur svo meiðslum á börnum í bílum fækkað um 20 að jafnaði á ári.

Svipuð eða sama þróun hefur átt sér stað hér á landi því að samskonar átak hófst hér um svipað leyti og í Danmörku, ekki síst fyrir frumkvæði Herdísar Storgaard hjúkrunarfræðings og Margrétar Sæmundsdóttur og Maríu Finnsdóttur hjá Umferðarráði, síðar Umferðarstofu og fleiri. Segja má að það átak standi enn því að aðhald í þessum málum hefur síðan verið jafnt og stöðugt. Sem dæmi um það hefur Umferðarstofa í samvinnu við Slysavarnasamtökin Landsbjörgu og tryggingafélög undanfarna tæpa tvo áratugi gengist fyrir árlegri athugun við leikskóla á því hvort foreldrar noti viðeigandi öryggisbúnað fyrir börn sín.

Sigurður Helgason hjá Umferðarstofu segir í samtali við FÍB vefinn að úr gögnum úr þessum athugunum megi lesa hvernig notkun barnaöryggisbúnaðar hefur breyst frá því að vera mjög sjaldgæf yfir í það að verða almenn regla. Þá hafi notkun rétts búnaðar aukist – búnaðar sem bæði hæfir stærð og þyngd barns og sjálfum bílnum. „slys á börnum í bílum voru mjög algeng á árum áður þegar barnaöryggisbúnaður í bílum var fátíður. Nú þegar notkun hans er orðin að meginreglu eru slík slys fátíð, sem betur fer,“ sagði Sigurður Helgason.

Eins og Sigurður benti á, skiptir miklu máli að börn séu fest í réttan öryggisbúnað sem hæfir aldri þeirra og þyngd. Þegar barnaöryggisbúnaður er valinn er rétt að hafa eftirfarandi í huga:

Stóllinn verður að hæfa stærð barnsins, aldri þess, hæð og þyngd. Börn sem eru minni en 135 sm eiga að vera í barnastól í bílnum.

Stóllinn verður að passa í bílinn. Mátaðu stólinn í bílinn og prófaðu að festa hann í áður en þú kaupir.

FÍB mælir aðeins með barnastólum sem hlotið hafa minnst fjórar stjörnur í barnastólaprófun ADAC og evrópsku bifreiðaklúbbanna – systurfélaga FÍB. Hér og hér má sjá nýjustu könnunina.

Kauptu barnastólinn þar sem söluaðilar hafa þekkingu til að geta veitt þér nauðsynlegar upplýsingar, ráðgjöf og leiðbeiningar.

Barnastólar og sætispúðar eiga samkvæmt lögum og reglum að hafa hlotið evrópska gerðarviðurkenningu og vera merktir sem slíkir. Gakktu úr skugga um hvort á þeim er merkingin ECE 44-03 eða ECE 44-04