Fagleg umræða um vegagerð, umferðar- og -öryggismál
Ekið í þoku. Mynd: ÞÖK.
Mikil umræða hefur farið fram undanfarið í samfélaginu um vega- og umferðarmál og umferðaröryggi sem er vel. En því miður hefur talsvert vantað upp á það að umræður og skrif um vegagerð, umferðar- og umferðaröryggismál hafi byggst á faglegum og tæknilegum rökum hjá mörgum þeim sem um þessi mál hafa tjáð sig í ræðu og riti.
Ýmislegt hefur í þessari umræðu verið fullyrt sem ekki á við nein rök að styðjast. Meðal þess má nefna fjölmargt það sem sagt hefur verið um endurbætur á vegum út frá höfuðborgarsvæðinu.
Af þessum ástæðum er augljóslega mikil þörf á því að myndaður verði vettvangur þar sem þessum málum verði gerð skil á hlutlægan og málefnalegan hátt. Mikilvægt er að rökum, faglegri umfjöllun og niðurstöðum rannsókna verði þar til skila haldið og haft að leiðarljósi, ásamt bestu þekktu aðferðum og viðmiðunum erlendis frá.
Því hafa undirritaðir ákveðið að standa fyrir slíkri umræðu með fulltingi FIB sem mun birta greinar og athugasemdir á heimasíðu sinni. Það er von allra sem að þessu standa að þetta muni leiða til betri og markvissari umræðu sem skili okkur fram á við, en það er sannfæring okkar að sú umræða sem hefur nú um sinn verið í gangi, skili sáralitlu til bættrar umferðarmenningar og umferðaröryggis.
Fréttavefur FÍB er frjáls og opinn fjölmiðill þar sem öllum er velkomið að koma þekkingu sinni eða skoðunum á framfæri. Greinar sem birtast munu um vega- og samgöngumál á Íslandi á fréttavef FÍB eru á ábyrgð höfunda og þær skoðanir sem þar kunna að koma fram þurfa alls ekki að vera í samhljómi við skoðanir stjórnar FÍB, einstakra stjórnarmanna eða starfsmanna FÍB. Stjórnendur fréttavefs FÍB telja hins vegar að opin og upplýst umræða um þessi mál sé nauðsynleg til að hægt sé að taka vitrænar ákvarðanir í samgöngu- og umferðaröryggsmálum til sem mests gagns fyrir samfélagið allt.
Fyrsta faglega greinin um þessi mikilvægu mál birtist hér á vefnum í fyrramálið. Höfundur hennar er Rögnvaldur Jónsson verkfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Vegagerðarinnar.
Dr. Haraldur Sigþórsson umferðarverkfræðingur hjá Línuhönnun og aðjúnkt hjá Háskólanum í Reykjavík.
Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður FIB, stjórnarmaður í LÍA, fulltrúi í Umferðarráði, tæknistjóri EuroRAP á Íslandi, alþjóðlegur dómari FIA í akstursíþróttum .
Rögnvaldur Jónsson verkfræðingur og fyrrum framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs hjá Vegagerðinni.