Skortur á aðhaldi og fákeppni skýri gríðalega hátt verð
Í umfjöllun á visir.is kemur fram að bensínverð á Íslandi er það þriðja hæsta á heimsvísu og dísilverð það næsthæsta. Framkvæmdastjóri FÍB, Runólfur Ólafsson, segir fákeppni og skort á aðhaldi stjórnvalda skýra gríðarlega hátt verð.
Á vefsíðunni Global Petrol Prices er gerð samantekt á eldsneytisverði í 168 ríkjum. Þar kemur fram að á Íslandi sé meðalverð á bensíni 303 krónur og á dísil 310 krónur. Hong Kong er eina ríkið þar sem bæði bensín- og dísilverðið er hærra en á Íslandi og í Mónakó er bensínið dýrara.
Í Danmörku er bensínlíterinn tuttugu krónum ódýrari, í Noregi fjörutíu krónum ódýrari, Finnlandi 65 krónum ódýrari og í Svíþjóð 85 krónum ódýrari. Runólfur Ólafsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir muninn milli Norðurlandanna sláandi. Félagið hafi lengi gagnrýnt þessi háu verð sem skýrast að miklu leyti af fákeppnisumhverfi.
„Það þarf miklu víðtækara aðhald með þessum markaði en hefur verið undanfarin ár. Ég bind vonir við að ný stjórnvöld íhugi það hvernig hægt sé að bregðast við þessu með einhverjum hætti. Það er mjög slæmt að við búum við fákeppni varðandi svona stóra vöruflokka sem hafa mikil áhrif á afkomu heimilanna,“ segir Runólfur.
Lágt verð eldsneytis hjá Costco hafi til skamms tíma valdið lækkunum hjá olíufélögunum. Þau hafi hins vegar dregið í land.
„Til skamms tíma voru þessar lággjaldastöðvar hinna félaganna að bjóða lítraverð sem var kannski tveimur til fimm krónum yfir Costco-verðinu. En þetta hefur breyst núna síðustu misserin og nú er verðmunurinn orðinn mun meiri. Það sýnir sig að menn eru tilbúnir að draga í land með samkeppnina því þeir treysta á fákeppnina,“ segir Runólfur í samtalinu við visir.is.