Fallinn rafbíll?
Rafbíllinn Renault Fluence ZE sem átti að vera einn mikilvægasti rafbíll Renault selst sáralítið og almenn sala á honum hefur raunverulega aldrei komist í gang. Í Danmörku á nú að ræsa nýja auglýsingaherferð til að freista þess að fá söluna af stað.
Fluence ZE er upphaflega samvinnuverkefni Renault og ísraelska auðmannsins Shai Agassi og fyrirtækis hans; Better Place. Bíllinn átti að vera sjálf lífæð Better Place sem reist hefur fjölda hleðslustaura, hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla og tvær geymaskiptastöðvar í Danmörku. Í geymaskiptistöðvunum er á sjálfvirkan hátt skipt út tómum rafgeymum í Renault Fluence fyrir fulla. Þrjár nýjar skiptistöðvar eru í byggingu og eru sagðar komast í gagnið innan fárra mánaða.
Allt þetta umstang átti að færa notagildi rafbílanna nærri notagildi bíla með hefðbundnar vélar. Þrátt fyrir mikla umfjöllun og almennan áhuga á rafbílum í Danmörku og Ísrael þar sem Better Place hefur aðallega látið til sín taka, hafa kaupendur og leigutakar rafbílanna látið mjög á sér standa. Í Ísrael hafa selst alls um 350 Fluence ZE og 120 í Danmörku. Hvorttveggja er órafjarri áætlunum.
Fyrstu Fluence ZE bílarnir komu til Danmerkur í maímánuði sl. Þá voru 75 Fluence bílar nýskráðir. Í júní voru síðan 18 nýskráðir og í júlí aðeins 5. Nýskráningarnar gætu vissulega verið fleiri því að Renault í Danmörku á rúmlega 100 glænýja Fluence bíla á lager að sögn fréttaveitu FDM í Danmörku. FDM eru systursamtök FÍB og náinn samstarfsaðili.
Framtíðarhorfur fyrirtækisins Better Place og danskrar rafbílavæðingar eru því ekki bjartar. Ekki er lengra síðan en fjögur ár frá því að Shai Agassi stofnandi og eigandi Better Place sagði við blaðamenn á Frankfurt bílasýningunni að hann væri búinn að festa kaup á 100 þúsund Renault Fluence ZE rafbílum sem seldir yrðu kaupendum eða leigðir leigutökum í Ísrael og Danmörku fram til ársins 2016.
Danmörk er það ríki heims sem einna mesta áherslu hefur lagt á útbreiðslu rafbíla. Árangurinn er hins vegar með ólíkindum rýr. Upplýsingafulltrúi Renault í Danmörku ber sig þó vel. Hann segir við FDM að salan á Fluence ZE sé vissulega ekki fullnægjandi en það sé eðlilegt að kaupendur rafbíla hafi verið hikandi fram að þessu. Það sé fyrst nú sem bílakaupendur geti séð með eigin augum að hleðslukerfin og geymaskiptistöðvarnar virki. „Við höfum lítið auglýst en frá og með næstu viku byrjum við að auglýsa í sjónvarpi. Þá byrja hjólin að snúast fyrir alvöru,“ segir upplýsingafulltrúinn; Søren Hyltoft Thomsen.
En tregðan í rafbílasölunni í Danmörku einskorðast alls ekki við Renault og Better Place. Hún er almennt afar hæg og fer minnkandi. Fyrstu sjö mánuði síðasta árs seldust einungis 314 rafbílar. Á sama tímabili á þessu ári seldust 280 bílar.
Tíðindamaður FÍB fréttamiðlanna var í Danmörku nýlega og bjóst við að sjá þá nokkra rafbílana í umferðinni í höfuðborginni og víðar á hinu þéttbyggða Norður-Sjálandi þar sem hann var talsvert á ferðinni um þriggja vikna skeið. Hann ók einu sinni framúr Renault Kangoo rafbíl á hraðbrautinni milli Helsingör og Kaupmannahafnar og sá þvínæst tvo nýja og reyndar mjög glæsilega og fallega Renault Fluence rafbíla sem stóðu á bílastæði bak við ráðhús Kaupmannahafnar. Annar var tengdur hraðhleðslustaur sem merktur var Better Place. Þetta var allt og sumt. Fleiri rafbíla sá hann ekki.