Farsinn um göngin að Bakka
Í leiðara 3.tbl. FÍB-blaðsins 2018 sem er nýkomið út er m.a. tekið til umfjöllunar ein nýjustu jarðgöng landsins, göngin undir Húsavíkurhöfða. Þar kemur fram að á sínum tíma ákvað ríkisstjórn Íslands að grafa göng undir Húsavíkurhöfða milli hafnarinnar við Húsavík og iðnaðarsvæðisins á Bakka. PCC Kísilverið á Bakka mun þurfa að brenna 66 þúsund tonnum af kolum árlega við framleiðsluna.
Á tímum vaxandi vitundar um alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga var samþykkt af ríkisstjórn og meirihluta Alþingis að verja fjórum milljörðum króna af vegafé sem innheimt var með bílasköttum til að styrkja uppbyggingu á mengandi stóriðju.
Í upphafi var gert ráð fyrir að kostnaður við framkvæmdina að Bakka yrði 1,8 milljarðar króna. Endanlegur kostnaður var um 4 milljarðar króna. Allur viðbótarkostnaðurinn rann létt í gegnum fjár-veitingavaldið og engin var gerður ábyrgur vegna þessarar misnotkunar á almannafé og framúrkeyrslu á framkvæmdatímanum. Undanfarið hefur verið deilt um hver beri kostnaðinn af umsjón og rekstri Húsavíkurhöfðaganga og vegarins út á Bakka. Vegagerðin ætlar að hætta afskiptum af göngunum 1. nóvember n.k. og heldur því fram að henni sé óheimilt að þjónusta göngin enda almenn umferð um veginn bönnuð.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, telur sjálfgefið að Vegagerðin eigi að fara með veghaldið og bera kostnaðinn í samræmi við lögbundið hlutverk stofnunarinnar. Rekstrarkostnaður jarðganganna við Bakka falli undir kostnað við samgöngumál í fjárlögum. Þórdís Kolbrún hefur talað fyrir nýjum sköttum á bíleigendur, þ.e. vegtollum.
Sveitarfélagið Norðurþing ætlar ekki að taka reksturinn að sér og segir það hlutverk ríkisins. PCC á Bakka ætlar að annast göngin tímabundið en segist senda þann reikning á opinbera aðila. Í frétt RÚV um málið segir að sveitarfélagið vísi á ríkið, ríkið vísi á Vegagerðina og Vegagerðin neiti ábyrgð.
Það fóru 4 milljarðar króna í sértæka vegagerð undir Húsavíkurhöfða til styrktar stóriðju. Vegurinn er lokaður til afnota fyrir aðra vegfarendur en þá sem eiga erindi til eða frá PCC kísilverksmiðjunni. Vegfarendur um land allt borguðu framkvæmdina en mega ekki nota ,,eigin“ veg. Þetta var og er undarleg opinber framkvæmd sem þjónar á engan hátt almennum vegfarendum. Fáránlegt er að krefjast þess til viðbótar að rekstur þessa lokaða stóriðjuvegs sé á kostnað vegfarenda.