FBI varar við hættu á árásum tölvuhakkara á bíla
Bandaríska leyniþjónustan FBI og umferðaröryggisstofnunin NHTSA sent út viðvörun til bíleigenda og bílaframleiðenda. Í henni er varað við því að bílar séu stöðugt að verða tölvu- og netvæddari og þar með viðkvæmari fyrir árásum tölvuhakkara.
Í viðvöruninni segir m.a. -FBI og NHTSA vilja vara almenning og framleiðendur bíla sem og framleiðendur bílhluta hvort heldur í nýja bíla eða fyrir eftirmarkaðinn, við hættu á innbrotum í tölvukerfi hátæknivæddra nettengdra nútímabíla.“ Í tilkynningunni er þó bent á að þessi hætta á innrásum tölvuhakkara þurfi ekki endilega að ógna verulega umferðaröryggi. Engu að síður sé mikilvægt að fólk sé meðvitað um hættuna og grípi til allra þeirra varna sem tiltækar séu.
FBI og NHTSA ráðleggur ennfremur bileigendum og umráðamönnum bíla að læsa alltaf bílum sínum svo ókunnugar manneskjur komist ekki inn í þá og jafnvel taki þá traustataki. Þetta sé í stórum dráttum sama regla og sú að skilja aldrei tölvu sína eða farsíma eftir ólæsta eða í biðstöðu á glámbekk eða aðgangsorð að þessum tækjum þar sem óheiðarlegt fólk geti nálgast þau. –Þú skalt alltaf vera með það á hreinu hverjir það eru sem þekkja lykilorðið að bílnum þínum,“ segir í viðvöruninni. Þeim sem telur að tölvuhakkari hafi komist inn í tölvukerfi bíls síns er að lokum ráðlagt að hafa samband við FBI eða NHTSA og viðkomandi bílaumboð.