FDM Campingguide 2005/06
06.06.2005
FDM í Danmörku, systurfélag Félags íslenskra bifreiðaeigenda hefur gefið út mjög vandaða og ítarlega handbók um tjaldsvæði í Evrópu; Campingguide Europa 2005/06. Í bókinni eru ítarlegar og tæmandi upplýsingar um 3560 tjaldsvæði í 25 löndum álfunnar. Tjaldbúðahandbókin Campingguide Europa 2005/06 fæst á Íslandi aðeins hjá FÍB, Borgartúni 33 í Reykjavík. Síminn þar er 414 9999. Þar fá félagsmenn FÍB einnig tjaldbúðaskírteini sem veitir þeim margvíslegan forgang og fríðindi á tjaldsvæðunum.
Tjaldsvæði í Evrópu eru talin vera um 26 þúsund talsins, en svæðin sem fjallað er um í bókinni eru þau tjaldsvæði sem tekin hafa verið út af sérfræðingum hins öfluga þýska bifreiðaeigendafélags, ADAC og sérfræðingum FDM. Um hvert og eitt þeirra er í handbókinni stutt lýsing á staðsetningu, aðstöðu og búnaði og gefnar stjörnur fyrir hvern þátt þeirrar aðstöðu sem í boði er.
Auk lýsinga á tjaldsvæðunum sjálfum eru leiðbeiningar um hvaðeina er lýtur að tjaldferðalagi, akstri með tjaldvagn eða hjólhýsi, hraðatakmarkanir, hvar aðstoð er að finna í neyðartilvikum o.m.fl.
Tjaldbúðaferðalög eru sá ferðamáti sem býður upp á hvað mesta fjölbreytni og tjaldsvæði í Evrópu eru allt frá því að vera einföld og frumstæð upp í það að vera ferðamiðstöðvar með öllum þægindum og lúxus sem hugsast getur. Með tjaldbúðahandbók FDM og tjaldbúðaskírteini frá FÍB í farangrinum er fjölskyldan örugg um að njóta gleðilegs og eftirminnilegs sumarleyfis.