FDM hafnar auknum álögum á danska bíleigendur með nýjum tollvegum
Líkt og fram hefur komið í fréttum í vikunni hefur ATP, stærsti lífeyrissjóður Danmerkur, lýst yfir áhuga á að fjármagna og byggja nýjar hraðbrautir í nágrenni Kaupmannahafnar. ATP segist í framhaldinu vilja heimta gjald af ökumönnum til að greiða fyrir vegina.
Mjög skiptar skoðanir eru í Danmörku varðandi þessa málaleitan ATP. Vegir í Danmörku eru í ríkiseign og þar er almenna reglan að innheimta ekki sérstakt veggjald fyrir notkun þeirra. Undantekning frá þessu er gjaldtaka vegna ferða um brýrnar yfir Eyrarsund og Stórabelti. Fulltrúar ATP segja að slíkur tollvegur um Kaupmannahöfn muni draga úr verulega úr umferðarteppum og skila ATP góðum arði sem aftur skilaði sér til danskra lífeyrisþega á komandi árum.
FDM hafnar nýjum tollvegum
FDM systurfélag FÍB í Danmörku hefur lýst yfir einarðri andstöðu við hugmyndir um nýjar og auknar álögur á umferðina. FDM segir að danskir bíleigendur greiði þegar hæstu bílaskatta sem þekkjast í veröldinni og þess vegna eigi að vera gjaldfrjáls aðgangur að dönskum vegum. FDM reiknast til að af hverri krónu sem danskir bíleigendur borgi í ríkiskassann séu aðeins um 25-30 aurar notaðir í uppbyggingu og til viðhalds vega. Danskir bíleigendur borga árlega um 40 milljarða danskra króna í bílaskatta.
FDM segist til viðræðu um að danskir bílaskattar muni í framtíðinni þróast í auknum mæli yfir í afnotgjöld af því gefnu að heildarálögurnar aukist ekki. Hugmyndum um nýja tollvegi sem fælu í sér viðbótar skatta ofan á núverandi okurskatta er alfarið mótmælt.
Í yfirlýsingu FDM kemur einnig fram að félagið geti í undantekningartilvikum samþykkt tollvegi án breytinga á núverandi bílaskattakerfi t.d. ef um er að ræða framkvæmd sem leysi af hólmi ferjuleið (sbr. veggjöldin um brýrnar hér ofar). FDM hafnar alfarið vegatollum vegna endurbóta á fyrirliggjandi vegatengingum.
FDM segist opið fyrir hugmyndinni um samstarf hins opinbera við einkaaðila um framkvæmdir í vegagerð. Ef vegir í einkaframkvæmd sem ríkið greiðir fyrir með svokölluðum skuggagjöldum eru ódýrari en vegir sem unnir eru í hefðbundinni ríkisframkvæmd þá telur FDM það vera jákvætt. Sé það ekki raunin ber ríkinu nú sem fyrr að reka og byggja vegina. Markmiðið er að fá sem mesta og öruggasta uppbyggingu á samgöngukerfinu óháð því hver byggir eða rekur vegina.