FDM í Danmörku tapar tímareimamáli gegn Opel

http://www.fib.is/myndir/FDM.jpg
FDM, systurfélag FÍB í Danmörku hefur tapað í undirrétti máli sem félagið höfðaði gegn Opel og umboðsaðilum  Opel í Danmörku. FDM höfðaði málið fyrir hönd þriggja félagsmanna sem áttu Opelbíla en tímareimar í bílum þeirra höfðu slitnað og vélar bílanna stórskemmst. Í handbókum bílanna var tilgreint við hvaða kílómetrastöðu ætti að skipta út reimunum og hafði það í öllum tilfellum verið gert innan tiltekinna kílómetra- og tímamarka en þó slitnuðu reimarnar.

Málaferli þessi hafa staðið yfir frá því um miðjan síðasta áratug eftir að margir félagsmenn sem áttu Opelbíla höfðu lent í því að tímareimar slitnuðu áður, stundum löngu áður en handbók bílanna tiltók hvenær ætti að skipta út tímareimunum
Tímareimaslitin höfðu mjög dýrar viðgerðir í för með sér fyrir Opeleigendurna og krafðist FDM endurgreiðslu viðgerðarkostnaðarins og skaðabóta. Því hafnaði undirréttur á þeirri forsendu að handbækur bílanna og það sem í þeim stæði gæti ekki falið í sér neina ábyrgð á tímareimum bílanna, heldur væri einungis leiðbeiningar um það hvenær skynsamlegt væri að ráðast í tímareimaskipti.

Í frétt frá FDM segir að málinu verði nú áfrýjað til sjó- og verslunardóms til að fá úr skorið úr því hvort kalla megi  framleiðanda til ábyrgðar þegar varan reynist óviðunandi léleg.
Lasse Ellegard lögmaður hjá FDM segir að óvist sé hver niðurstaðan verður hjá sjó- og verslunardómnum en tapist málið þar verði  því áfrýjað til hæstaréttar. „Framleiðendur hljóta að þurfa að taka ábyrgð á eigin orðum í þjónustubók. Ef svo er ekki er auðvitað ekkert að marka það sem þar segir um hversu oft skuli skipta um tímareimar yfirleitt,“ segir lögmaðurinn.