Félagsmálaráðherra hjá FÍB
Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra kom í heimsókn í höfuðstöðvar FÍB í Borgartúni 33 fyrir stundu. Hann kynnti þar fyrir framkvæmdastjóra og ritstjóra félagsins þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst grípa til alveg á næstunni til að létta vanda lántakenda „erlendra“ stökkbreyttra bílalána. Fyrrnefndir starfsmenn FÍB gerðu ráðherra grein fyrir skoðunum félagsins á þessum málum og þeim alvarlega vanda og hremmingum sem fjöldi félagsmanna hefur verið og er í vegna þessara mála og þeim erfiðu samskiptum sem margir lántakenda hafa átt við lánafyrirtækin vegna þeirra.
Viðræðurnar við ráðherra og aðstoðarmenn hans voru mjög hreinskiptar og einlægar og skemmst er frá að segja að FÍB væntir þess að það náist samkomulag milli félagsmálaráðherra og bílalánafyrirtækjanna um nýja og mun hagfelldari nálgun þessara lánamála gagnvart lántakendum innan mjög skamms. Ef ekki þá muni verða lagt fram lagafrumvarp sem breyta muni mörgu til betri vegar í þessum málum, þegar það hefur náð fram að ganga.
Við munum greina frá framgangi málsins hér á fréttavef FÍB strax og eitthvað gerist og jafnharðan eftir því hver framvindan verður. Einnig minnum við á samantekt um „erlendu“ lánin í FÍB blaðinu sem byrjar að berast félagsmönnum um og upp úr næstu helgi. Þar er forsagan og helstu áfangar í málinu raktir frá efnahagshruininu og fram undir þetta.