Femern-brúin styrkir innviði Danmerkur
03.07.2007
Í síðustu viku lauk margra ára rökræðu um brúartengingu milli Þýskalands og Danmerkur yfir Femernsund með ákvörðun um að byggja brúna. Brúin verður milli Rødby á suðurströnd Lálands og Puttgarden í Þýskalandi.
Bílaferjur sigla stöðugt þarna á milli og er siglingatíminn tæpur klukkutími. Það þýðir að ferðatíminn með biðtíma eftir næstu ferju getur styst um allt að tvo tíma með brúnni. FDM, systurfélag FÍB í Danmörku telur að tekin hafi verið tímamótaákvörðun sem muni styrkja mjög innviði Danmerkur því með brúnni verði samgöngur milli Danmerkur og Þýskalands miklu auðveldari en áður og Danmörk með henni tengjast miklu betur við vegakerfið á meginlandi Evrópu.
„Það er alveg ljóst að Femern-brúin mun ekki aðeins styrkja innviði Danmerkur heldur allrar Evrópu. Samgöngur og flutningar verða auðveldari og fyrir danska birfreiðaeigendur verður mun auðveldara fyrir danska bifreiðaeigendur að aka til Evrópu, hvort heldur sem er í frí eða í viðskiptaerindum,“ segir Thomas Møller Thomsen framkvæmdastjóri FDM. Hann óttast ekki að framkvæmdir við brúna muni bitna á öðrum vegaframkvæmdum á danskri vegaáætlun vegna þess að brúarframkvæmdin verður fjármögnuð sérstaklega og munu veggjöld síðan standa undir stofnkostnaði og rekstri brúarinnar.