Ferðamannalandið Þýskaland
Árið 2011 urðu gistinætur erlendra ferðamanna í Þýskalandi 63,8 milljónir og hafa aldrei verið fleiri. Það eru ekki síst Norðurlandabúar sem heimsækja Þýskaland í fríum sínum og gistinætur Dana í fyrra voru tvöfalt fleiri en fyrir tíu árum, svo dæmi sé tekið. Þýskaland er orðið eitt fjölsóttasta ferðamannalandið í Evrópu.
Þýskaland er lang vinsælasta ferðamannalandið hjá Dönum. Árið 2011 urðu gistinætur Dana í Þýskalandi rúmlega 2,5 milljónir, eða 2,2 prósentum fleiri en árið 2010. Frá árinu 2001 til og með 2011 hefur gistinóttum Dana í landinu fjölgað um hvorki meira né minna en 87 prósent. Þjóðverjar sjálfir eru einnig duglegir við að ferðast um eigið land í fríum. Árið 2011 urðu gistinætur þeirra á hótelum og gististöðum landsins 330,3 milljónir og hafði fjölgað um 3,2 prósent miðað við árið á undan.
Forstjóri þýska ferðamálaráðsins, Petra Hedorfer, segir að Þýskaland sé stöðugt að styrkja sig í sessi sem eitt vinsælasta ferðamannalandið í Evrópu. Á milli áranna 2010 og 2011 hafi fjölgun ferðamanna orðið um það bil fimm prósent. Enn sé Spánn þó vinsælasta ferðamannaland Evrópu en Þýskalandið sé nú komið í annað sætið og vinni stöðugt á, ekki síst á kostnað Frakklands sem er í þriðja sætinu.
Hún segir ennfremur að fimm prósent fjölgunina milli 2010 og 2011 sé ekki síst að þakka mikilli fjölgun ferðamanna frá Kína, Indlandi og Brasilíu. Þaðan megi áfram vænta stöðugrar fjölgunar ferðamanna á næstu árum.
Á efa eru margar ástæður fyrir vaxandi vinsældum landsins. Ein er fall múrsins og sameining A. og V. Þýskalands í eitt ríki. Sem ferðamannaland stækkaði því Þýskaland nánast um helming á einni nóttu. Gríðarleg uppbygging hefur síðan átt sér stað í gamla A. Þýskalandi – borgir og bæir hafa verið endurreistir og vega- og samgöngukerfið tekið rækilega í gegn.
Þá hlýtur reglufesta Þjóðverja að eiga sinn þátt líka. Hún er ekki síst ástæða fyrir því að ganga má að góðum gisti- og matsölustöðum vísum hvar sem er í landinu og allt sem lofað er í þjónustu og viðurgerningi við ferðamenn stendur oftast eins og stafur á bók.
Þýska vegakerfið er einnig mjög gott og á vegum og hraðbrautum landsins má nánast treysta því að þýskir ökumenn fara í einu og öllu eftir reglum og fyrirmælum sem ökumönnum ber að fara eftir. Þá eru allar merkingar á og við vegi og hraðbrautir til mikillar fyrirmyndar og auðvelt er að ferðast akandi um landið og sjálfsagt hvergi auðveldara, fari maður á annað borð sjálfur eftir umferðarlögum og reglum.