Ferðamenn þurfa nú að taka ökupróf
Í gær var kynnt samstarfsverkefni Hertz, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Sjóvá um sérhannað ökupróf fyrir ferðafólk. Verkefnið gengur út á að allir sem leigja bíl hjá Hertz þurfa að horfa á myndband og taka í kjölfarið rafrænt próf og er bílaleigubíll ekki afhentur fyrr en leigutaki hefur staðist prófið.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, setti verkefnið formlega af stað í dag með því að þreyta prófið og stóðst það villulaust. Landsbjörg mun halda utan um verkefnið og verður prófið aðgengilegt á vef Safetravel.
Bílaleigan Hertz hafa verið leiðandi í forvarnarstarfi og eru sífellt að leita nýrra leiða til að ná til ferðafólks og auka þannig öryggi í umferðinni. Í byrjun verður þetta fyrirkomulag í útibúi bílaleigu Hertz við Flugvallarveg en í kjölfarið verður það útfært á fleiri stöðum og vonandi tekið upp hjá fleiri bílaleigum.