Ferdinant Piëch lofar eins lítra VW bíl innan fjögurra ára

http://www.fib.is/myndir/Ferdinand%20Pi%EBch.jpg
Ferdinand Piëch.

Volkswagen ætlar að byrja aftur þar sem hætt var fyrir tæpum fjórum árum á þróunarvinnu við mjög sparneytna bíla. Fyrst kemur fram nýr þriggja lítra bíll og innan þriggja til fjögurra ára reiknar stjórn VW með því að geta kynnt eins lítra bíl, það er að segja bíl sem eyðir einum lítra af eldsneyti á hundraðið og kemst þar með hvorki meira né minna en fimm þúsund kílómetra á fullum 50 lítra eldsneytistanki. Þetta kom fram í viðtali sem tekið var við Ferdinand Piëch stjórnarformann og fyrrverandi forstjóra Volkswagen í tilefni af sjötugsafmæli hans sem er í dag, þriðjudag.

Merkur bílahönnuður sagði fyrir margt löngu að í bílasmíði og –hönnun væri versti óvinurinn þyngdin. Hvað varðar eldsneytiseyðslu bíla þá er staðhæfingin í það minnsta hárrétt. Galdurinn við að byggja mjög eyðslugrannan bíl er fyrst og fremst sá að hafa bílinn nógu léttan þótt véltækni og loft- og núningsmótstaða skipti auðvitað verulegu máli líka.
Meðan Ferdinand Piëch var forstjóri VW stuðlaði hann mjög að hönnun og smíði mjög sparneytinna bíla, m.a. Volkswagen Lupo og síðar vindil-laga eins lítra hugmyndabílsins sem hann sjálfur ók svo frá höfuðstöðvunum í Wolfsburg til síðasta stjórnarfundar fyrirtækisins í hans forstjóratíð í Hamborg.  Það er sá bíll sem myndirnar eru af.http://www.fib.is/myndir/VW_1_Liter_Car.jpg

Ferdinand Piëch er nú stjórnarformaður VW og talsmaður stjórnarinnar og nú í tilefni afmælisins lofar hann „fólkinu“ nýjum og mjög sparneytnum Fólksvagni. Í fyrrnefndu afmælisviðtali við Piëch segir hann að rannsóknir séu þegar í gangi á ný á möguleikum þess að framleiða bílinn og halda útsöluverði hans innan ásættanlegra marka, en það er einmitt stærsti vandinn.

Sannleikurinn er nefnilega sá að það er vel mögulegt tæknilega að byggja mjög léttan og þar með ofursparneytinn bíl en þau ofurléttu en jafnframt níðsterku efni sem til þess þarf hafa verið mjög dýr fram að þessu en í viðtalinu segir Piëch að ljós sé framundan og hann reikni með því að hægt verði að framleiða slíkan bíl á skaplegu verði innan þriggja til fjögurra ára. „Ég hef þegar rætt við framleiðanda sem getur innan tveggja ára framleitt meginhluta yfirbyggingar og burðarvirkis slíks bíls fyrir fimm þúsund evrur í stað 35 þúsund evra eins og verðið er núna. Þar með verður hægt að framleiða bílinn og selja á verði sem almenningur ræður við,“ segir Ferdinand Piëch.http://www.fib.is/myndir/VW_one_litre_in.jpg

Í forstjóratíð sinni var Piëch virkur þátttakandi í vinnunni við litla vindil-lagaða smábílinn sem fyrr er nefndur. Yfirbygging bílsins var úr koltrefjaefnum og lítil dísilvél knúði hann áfram. Þegar Piëch ók bílnum frá Wolfsburg til Hamborgar árið 2002 mældist meðaleyðslan í ferðinni 0,89 lítrar á hundraðið. Þróunarvinnu við þennan eins lítra bíl var hætt árið 2005. „Þegar ég yfirgaf forstjórastólinn var línan sú að halda áfram að vinna að þróun eins lítra bílsins og halda áfram framleiðslu á þriggja lítra bílunum. Eftirmaður minn hinsvegar stöðvaði bæði þessi verkefni,“ segir Piëch og gagnrýnir þar með ákvörðun eftirmanns síns, Bernd Pischetsrieders.

Á aðalfundi VW á fimmtudag, þann 19. apríl í Hamborg er þess vænst að Ferdinand Piëch verði endurkjörinn stjórnarformaður og talsmaður Volkswagen samsteypunnar til næstu fimm ára. Þar með verður hann áfram einn valdamesti maðurinn í evrópska bílaiðnaðinum. Hann er nú stærsti einstaki hluthafinn í Porsche og Porsche jók nýlega eignarhlut sin í Volkswagen í 30,94 prósent.