Ferðum landsmanna í umferðinni fækkar samkvæmt nýrri ferðavenjukönnun
Daglegum ferðum landsmanna í umferðinni fækkar talsvert um land allt samkvæmt nýrri könnun á ferðavenjum Íslendinga sem framkvæmd í lok árs 2022. Daglegar ferðir á mann voru 3,2 að meðaltali á landsvísu eru voru 3,7 árið 2019 þegar síðasta könnun var gerð. Ferðum fækkar í öllum landshlutum og hjá flestum aldurshópum, nema börnum yngri en 17 ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá innviðarráðuneytinu.
Í könnuninni eru ferðavenjur fólks mældar fyrir alla samgöngumáta og niðurstöður teknar saman fyrir landið allt, einstaka landshluta, sveitarfélög og hverfi þar sem það á við. Ferðavenjukönnunin nær til alls landsins en það var fyrst gert í síðustu könnun árið 2019. Sambærilegar kannanir höfðu fjórum sinnum áður verið gerðar en eingöngu fyrir höfuðborgarsvæðið.
„Ferðavenjukönnunin er ein umfangsmesta úttekt á ferða- og samgönguvenjum landsmanna sem gerð er með reglubundnum hætti. Nú hafa kannanir verið gerðar í tvígang fyrir allt landið og fróðlegt að bera saman niðurstöður kannana. Frá því að síðasta könnun var gerð gekk heimsfaraldur yfir og gefur könnunin því fyrstu vísbendingar um áhrif faraldursins til lengri tíma,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra í tilkynningunni.
Samanlögð hlutdeild þeirra sem nota aðra ferðamáta en einkabíl á höfuðborgarsvæðinu eykst um 3 prósentustig (25% í 28%). Þetta er í raun í fyrsta sinn sem þessi samanlagða hlutdeild eykst frá því 2002. Þeir sem voru bílstjórar voru 58% (60% árið 2019) og farþegar í bíl 14% (15%). Hlutfall gangandi eykst og er 15% (14%) en hlutfall þeirra sem nota almenningssamgöngur, 5%, og hjólandi, 4%, er óbreytt milli kannana. Hlutfall þeirra sem fara ferðir með öðrum hætti er nú 4% og þar ræður tilkoma smáfarartækja miklu.
Ferðum með einkabíl fækkar sömuleiðis á landsbyggðinni um 3 prósentustig, og færast þær ferðir yfir í göngu, hjól og almenningssamgöngur.
96% landsmanna hafa bíl til umráða
Nær allir landsmenn, eða 96%, hafa bíl til umráða. Þar af hafa 15% aðgengi að tvinnbíl og 12% að 100% rafmagnsbíl. Nokkur munur er á aðgengi að rafmagnsbílum á suður, vestur og suðvestur horni landsins og öðrum landshlutum.
Heimili landsins eiga jafn marga bíla (1,7 að jafnaði) og hjól (1,7 að jafnaði). Samanlagður fjöldi farartækja á heimilum (bílar, hjól og rafhlaupahjól) er að jafnaði um 3,5 á hverju heimili. Fjöldinn er nokkuð svipaður milli landshluta.
Nánar um könnunina
Gallup framkvæmdi ferðavenjukönnunina í október og nóvember 2022 og byggði á úrtaki rétt rúmlega 32.000 einstaklinga. Svarhlutfall var 36,2% sem þykir viðunandi fyrir jafn umfangsmikla könnun og raun ber vitni.
Þau sem stóðu að könnuninni að þessu eru: Innviðaráðuneytið, Samtök um sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), Vegagerðin, Strætó, Skipulagsstofnun og HMS. Hægt er skoða allar niðurstöður könnunarinnar á vef ráðuneytisins.