Fern ný jarðgöng undirbúin og áfram unnið að undirbúningi Sundabrautar

Alþingi samþykkti í vikunni fjárlög fyrir árið 2025. Heildarframlög til samgöngumála nema rúmum 62 milljörðum kr. og hækka um 9 milljarða kr. frá yfirstandandi ári, eða 17%. Unnið verður í ýmsum stórum verkefnum á árinu 2025, m.a. á Vestfjörðum, Reykjanesbraut og við Hornafjarðarfljót. Þá verða þrír milljarðar settir í að leggja tengivegi víða um land og að fækka einbreiðum brúm að því fram kemur í tilkynningu innviðaráðuneytisins.

Framkvæmdum á vegum hefur nú verið forgangsraðað fyrir árið 2025 þar sem ný samgönguáætlun og tilheyrandi aðgerðaáætlun var ekki afgreidd á nýloknu þingi. Fjárlög marka þó á hverjum tíma ramma fyrir framkvæmdir og þjónustu í samgöngum og samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034 er áfram í fullu gildi. Breikkun Vesturlandsvegar að Hvalfjarðargöngum frestast hins vegar samkvæmt samgönguáætlun næsta árs.

Vegaframkvæmdir árið 2025

Alls verður rúmum 27 milljörðum kr. ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu á árinu 2025. Meðal stærstu framkvæmda sem unnið verður að eru eftirtalin: Reykjanesbraut (Krýsuvíkurvegur-Hvassahraun), brú og vegtengingar við Hornafjarðarfljót, tvö verkefni á Vestfjarðavegi (Gufudalssveit og Dynjandisheiði) og Norðausturvegur (Brekknaheiði).

Áfram verður unnið að undirbúningi Sundabrautar. Þá er gert ráð fyrir framlögum vegna undirbúnings jarðgangna á fjórum stöðum (Fljótagöng, Hvalfjarðargöng, Ólafsfjörður/Dalvík og Súðavík/Ísafjörður). Fjarðarheiðargöng á milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða bíða hins vegar enn.

Þar að auki hefjast framkvæmdir vegna Ölfusárbrúar á næsta ári (Hringvegur við Ölfusá) en gert er ráð fyrir því að veggjöld af umferð muni standa undir kostnaði við framkvæmdir og tefja því ekki framkvæmdir við aðra samgönguinnviði.

Tengivegir og fækkun einbreiðra brúa

Tæpir 4,3 milljarðar kr. fara í framlög í fjölbreytt sameiginleg verkefni. Þar á meðal verða 2,5 ma. kr. settir í að leggja slitlag á tengivegi um land allt og 500 m.kr. í að fækka einbreiðum brúum, eða samtals 3 ma.kr. Stefnt að því að einbreiðum brúm fækki um fimm árið 2025, á Hringveginum og utan hans.

Til viðbótar við þetta er unnið að fjölbreyttum framkvæmdum á grunni samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Meðal þess sem unnið verður að á næsta ári er Fossvogsbrú, framkvæmdir við Arnarnesveg, nýir hjóla- og göngustígar ásamt ýmsum aðgerðum í umferðastýringu. Samtals nema framlög til þessara verkefna um 6,7 milljörðum króna.