FIA heiðrar tæknifyrirtækið Bosch
Max Mosley forseti FIA.
FIA akademían hefur sæmt þýska tæknifyrirtækið Bosch árlegum heiðursverðlaunum fyrir framúrskarandi starf að umferðaröryggi. Verðlaunin eru veitt árlega þeim aðila tengdum notkun og umferð bíla – einstaklingi eða félagi - sem mest og best er talinn hafa stuðlað að bættu öryggi í umferðinni í heiminum á árinu.
Í FIA akademíunni eiga átta elstu félögin innan FIA fulltrúa. FIA eru heimssamtök bifreiðaeigendafélaga og bifreiðaíþróttafélaga og innan samtakanna eru FÍB og Landssamband íslenskra akstursíþróttafélaga. Bosch hlýtur heiðursverðlaun FIA einkum fyrir að hafa staðið að herferðinni –-Veljum ESC (stöðugleikabúnað).
Franz Fehrenbach stjórnarformaður Bosch tók við verðlaunagripnum á árlegri uppskeruhátíð bílasportsins sem haldin var í Monaco sl. föstudag. Hann sagði við það tækifæri að ESC stöðugleikakerfið væri ótvíræð staðfesting þess að bílatæknin stuðlar að því að gera umferðina öruggari og sjálfbæra. –Við teljum þetta vera skyldu okkar sem eins stærsta íhlutaframleiðandans fyrir bílaiðnaðinn.
Max Mosley, forseti FIA sem afhenti verðlaunin sagði að Bosch hefði verið brautryðjandi í þróun og útbreiðslu áhrifamesta öryggistækis fyrir bíla sem fundið hefði verið upp síðan þriggja punkta öryggisbeltin komu fram. Herferðin -Veljum ESC, sem enn stendur yfir, er studd af Evrópuráðinu og Euro NCAP. Helsti talsmaður hennar er sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1, Michael Schumacher.
ESC er skammstöfun fyrir Electronic Stability Control eða rafræn stöðugleikastýring. Búnaðurinn kemur í veg fyrir að bíll renni eða skrensi og verði stjórnlaus. Þetta gerist með því að skynjarar senda boð til hemlakerfisins sem grípur inn þegar hætta er á ferðum og hemlar og slakar á víxl á einu eða fleiri hjólum til að hindra að bíllinn verði stjórnlaus.
Á síðasta ári fékk japanski hjólbarðaframleiðandinn Bridgestone heiðursverðlaun FIA fyrir sinn mikla þátt í herferðinni Hugsaðu áður en þú ekur af stað, eða Think Before you Drive. FÍB tók virkan þátt í þeirri herferð ásamt Umferðarstofu og gaf út bækling á íslensku sem dreift var inn á hvert einasta heimili í landinu.