FIA mælir með ESC stöðugleikabúnaði
Max Mosley, forseti FIA, en FÍB er aðili að FIA. Myndin var tekin á Umferðarþingi 2004.
FIA, alþjóðasamtök bifreiðaeigendafélaga og bílaíþrótta mun innan skamms hleypa af stokkunum samevrópskri hvatningarherferð varðandi ESC / ESP stöðugleikabúnað í bílum. Í þessari herferð verður fólk hvatt til að velja bíla með stöðugleikabúnaði fremur en bíla án búnaðarins þegar keyptur er nýr bíll. Þá verða bílaframleiðendur hvattir til að gera þennan lífsnauðsynlega slysavarnabúnað að staðalbúnaði í öllum nýjum bílum framvegis. Átakið nefnist Veljum ESC. ESC er skammstöfun fyrir Electronic Stability Control eða rafeindastýrður stöðugleikabúnaður. FIA og FIA Foundation-stofnunin stendur að þessu átaki með stuðningi EuroNCAP og Evrópuráðsins.
Bílasýningin í Genf verður opnuð almenningi á morgun, fimmtudag en hefur nú verið opin blaðamönnum í tvo daga. Á blaðamannafundi í morgun á sýningarsvæðinu kynnti Max Mosley forseti FIA átakið fyrir fréttamönnum og bílaframleiðendum og sagði m.a: „Við stöndum heilshugar að átakinu -Veljum ESC - vegna þess að það leikur enginn vafi á því að því algengari sem þessi virki öryggisbúnaður verður í bílum, þeim mun meiri líkur eru á því að markmið Evrópusambandsins um helmingsfækkun dauðaslysa í evrópskri umferð fyrir árið 2010 muni nást.
Til að ná markmiðinu er það bjargföst vissa FIA að auka verði fræðslu um kosti ESC stöðugleikabúnaðar og að upplýsingar um búnaðinn verði aðgengilegar öllum þeim sem nota bifreiðar. Bílaframleiðendur nota nú fjöldamörg og mismunandi nöfn yfir stöðugleikabúnað. Það ruglar neytendur í ríminu og hindrar að þeir verði meðvitaðir um gagnsemi ESC og gerir bílasölum erfiðara fyrir með að útskýra gagnsemi búnaðarins fyrir viðskiptavinunum.
FIA er þess ennfremur fullvisst um að ESC ætti að vera staðalbúnaður í hverjum einasta nýjum bíl sem seldur verður og verði það ekki síðar en árið 2012. Ef það gengur eftir mun Evrópa standa jafnfætis Bandaríkjunum í þessu efni, en umferðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, US National Highway Administration (NHTSA) tók slíka ákvörðun í september 2006.
ESC - rafeindastýrður stöðugleikabúnaður er virkur tækni-öryggisbúnaður sem stjórnar hemlakerfi bílsins og kemur í veg fyrir bíllinn skriki til að aftan (yfirstýri) eða framan (undirstýri) og kemur þannig í veg fyrir eða dregur úr líkum á því að ökumaður missi stjórn á honum. Búnaðurinn skptir mjög miklu í í því að koma í veg fyrir útafakstur og árekstra og / eða að draga úr afleiðingum þeirra. Fjöldi rannsókna bæði í Evrópu og Bandaríkjunum og víðar staðfesta að ESC getur komið í veg fyrir allt 35 prósent slíkra slysa.
Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir að ESC hefur fyrirfundist síðan árið 1995 hefur framgangur þess verið hægur í fjölmörgum löndum og stórlega hefur skort á að neytendur séu sér meðvitaðir um kosti og gildi ESC.“
Herferðin - Veljum ESC! – hefst formlega við sérstaka athöfn í Rómarborg þann 8. maí nk. Að herferðinni standa FIA og FIA Foundation stofnunin. Við það tækifæri verða einnig birtar niðurstöður rannsóknar sem EuroNCAP eða European New Car Assessment Programme hefur gert á útbreiðslu og aðgengi neytenda að bílum búnum ESC innan Evrópu. Jafnframt verður sýning og sýnikennsla þar sem borin verður saman geta bíla með og án ESC búnaðar.“
Samhliða því að hrinda formlega úr vör herferðinni -Veljum ESC í Róm þann 8. maí, hefur Max Mosley boðið ýmsum áhrifamönnum í umferðaröryggismálum og bílaiðnaði til kvöldverðar til að ræða leiðir til frekari útbreiðslu ESC kerfis í bílum. Meðal gesta forseta FIA verða Evrópuráðherrann Viviane Reding , Ivan Hodac, forseti sambands evrópskra bílaframleiðenda, Nicole Nason, framkvæmdastjóri NHTSA í Bandaríkjunum og Claes Tingvall, stjórnarformaður Euro NCAP.
Í tengslum við upphaf átaksins verður einnig haldinn alþjóðlegur vinnufundur áhrifafólks um umferðaröryggis- og bíltæknimál. Í honum munu taka þátt m.a. fulltrúar NHTSA og ástralska sambandsríkisins Victoria. Í Victoria er þegar hafið svipað átak og – Veljum ESC og NHTSA hefur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna lagt til að einn alþjóðlegur samræmdur staðall verði ákveðinn fyrir ESC kerfi.
Auk ofannefndra taka þátt í þessum vinnufundi fulltrúar flestallra helstu bílaframleiðenda heims, framleiðenda íhluta í bíla, fulltrúar stjórnvalda einstakra Evrópuríkja og Evrópusambandsins auk fulltrúa fjölmiðla hvaðanæva úr álfunni.