FIA og Rauði krossinn í samstarf um slysavarnir
Alþjóðasamtök bifreiðaeigendafélaga, (FIA) og Alþjóða Rauði krossinn, (IFRC) undirrituðu fyrr í dag, 8. maí, samning um nánari samvinnu um umferðarslysavarnir og aðstoð við fórnarlömb umferðarslysa. Samningurinn tengist einum af fimm meginþáttum átaks Sameinuðu þjóðanna; Áratugi aðgerða gegn umferðarslysum 2011-2020. Sá meginþáttur lýtur einmitt að því að aðstoða þá sem slasast hafa við að ná heilsu og lífsfærni á ný. Á myndinni takast þeir Jean Todt forseti FIA (t.v.) og Bekele Geleta, framkvæmdastjóri Alþjóða Rauða krossins í hendur eftir undirritun samningsins.
FIA og IFRC hyggjast kynna nánar sameiginleg verkefni sín og markmið í þessum efnum á alþjóðlegum fyrstu-hjálpar degi sem verður haldinn þann 13. september í haust. Þau lúta einkum að eftirfarandi atriðum:
-Kynna almenningi mikilvægi góðrar kunnáttu í skyndihjálp og hve nauðsynlegt það er að fórnarlömb slysa fái góða aðhlynningu sem skjótast eftir að slys hefur átt sér stað.
-Skipuleggja viðburði eða uppákomur á opinberum stöðum þar sem vegfarendur eru fræddir um fyrstu hjálp og slysavarnir.
-Búa til fræðslu- og kennsluefni um fyrstu hjálp til nota innan aðildarfélaga FIA og í ökuskólum.
Þessu til viðbótar hyggjast FIA og IFRC beina sjónum sérstaklega að öryggi barna í umferðinni í alþjóðlegri umferðaröryggisviku Sameinuðu þjóðanna í maímánuði á næsta ári – 2015.
“Rauði krossinn/Rauði hálfmáninn eru stærstu hjálparsamtök heims. Samtökin hafa sl. tvo áratugi látið sig varða umferðaröryggi og umferðarslysavarnir og átt samvinnu við önnur samtök um að bjarga mannslífum með því að fá almenning til breytts hugsunarháttar og ábyrgrar umferðarhegðunar,” sagði Bekele Geleta, framkvæmdastjóri IFRC við undirritun samningsins. “Samvinnan við FIA gerir okkur það mögulegt að ná beint til félagsmanna aðildarfélaga innan FIA um allan heim og saman mun okkur takast að efla vitund þeirra um nauðsyn ábyrgrar umferðarhegðunar og um mikilvægi þess að kunna grundvallaratriði fyrstu hjálpar og geta beitt þeirri kunnáttu til bjargar mannslífum.
Jean Todt forseti FIA sagðist mjög glaður yfir því að samvinna þessara tveggja samtaka væri nú í höfn. “Með samningnum er það nú skjalfest að báðir aðilar stefna að sama markmiði sem eru öruggari vegir og öruggari umferð. Aðstoð og stuðningur við fórnarlömb umferðarslysa er einmitt einn mikilvægasti þátturinn í því að gera vegina og umferðina öruggari. Reynsla og þekking Alþjóða Rauða krossins, skipulag hans og hjálparnet mun auðvelda leiðina að takmarkinu og efla almennan skilning á mikilvægi þessa starfs,” sagði Jean Todt meðal annars.