Fiat 500 flýtt

The image “http://www.fib.is/myndir/Fiat500-nyr.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Fiat 500 hinn nýi.


Fiat hefur tilkynnt að frumsýningunni á hinum nýja Fiat 500 sem fullklárum framleiðslubíl verði flýtt. Gert hafði verið ráð fyrir að hann yrði kynntur bílablaðamönnum undir lok ársins en þess í stað fer sú kynning fram þann 4. júlí nk. Á þeim degi verða nákvæmlega 50 ár frá því að fyrsti Fiat 500 bíllinn var kynntur blaðamönnum. Mikið húllumhæ verður þá í Torino á N. Ítalíu við höfuðstöðvar Fiat.

Fiat hefur að undanförnu verið að þróa nýjar bílvélar, m.a. tveggja strokka vél fyrir smábíla sem búist var að yrði í fyrstu nýju 500 bílunum. Samkvæmt fregnum frá Torino nú lítur ekki út fyrir að þetta gangi eftir heldur verði tvær gerðir bensínvéla í bílunum; sú minni 1,2 l og 69 ha. og sú stærri 1,4 l og allt að 100 hö. Ennfremur verði í boði 1,3 lítra, 75 ha. dísilvél sem m.a. er í Suzuki Swift, Wagon-R+, Opel Corsa og fleiri bílum.

Gamli Fiat 500 er nú talsvert eftirsóttur sem safngripur og meðal þekktra manna sem eiga og hafa gamla Fiat 500 í talsverðum metum eru Ómar Ragnarsson og Michael Schumacher. Bíll Ómars hefur verið til sýnis í sýningarsal Fiat-bílaumboðsins Sögu að Malarhöfða 2a að undanförnu.

Nýi Fiat 500 er byggður á tækni og á grunnplötu frá Fiat Panda og eru bílarnir mjög svipaðir að stærð, eða 3,55 metra langir og 1,65 m breiðir. Vélarnar sem verða (í það minnsta í fyrstunni) í hinum nýja Fiat 500 eru sömuleiðis þær sömu og í Panda þannig að talan 500 á ekki lengur við rúmtak vélarinnar eins og var í gamla daga.
http://www.fib.is/myndir/Fiat500new.jpg
Hinn nýi Fiat 500 verður fremur lífsstílsbíll en ódýr og íburðarlaus smábíll fyrir févana fólk eins og sá gamli var upphaflega hugsaður. Hann mun að því leyti sverja sig í bræðralag með öðrum slíkum bílum, eins og t.d. hinum nýja Mini og nýju VW Bjöllunni. Erlend bílablöð segja að verðið verði eilítið hærra en á Pöndunni, en alls kyns búnaður, þar með talinn öryggisbúnaður, verði lika ríkulegri í Fiat 500 en Panda. Byrjað verður að selja Fiat 500 í heimalandinu Ítalíu fljótlega etir frumsýninguna en búist er við honum til Danmerkur og Íslands síðar, eða í kringum áramótin næstu.