Fiat 500, Kia Cee’d og Peugeot 308 eru fimm stjörnu bílar
Fiat 500.
Þann 29. ágúst sl. birti Euro NCAP niðurstöður árekstrarprófana á hinum nýja smábíl Fiat 500 og nýju gerðinni af Renault Twingo. Þá voru og birtar niðurstöður prófana á tveimur meðalbílum í Golf-stærðarflokknum. Þeir voru Kia Cee’d og Peugeot 308. Þrír bílanna sem nú hafa verið árekstursprófaður hlutu hæstu einkunn, fimm stjörnur en einn – Renault Twingo - hlaut fjórar.
Trúlega hefur enginn bíll í bílasögunni verið kynntur með jafn mikilli viðhöfn og hinn nýi Fiat 500. Fyrirrennarinn, smábíll sem sama nafni var tímamótabíll á árunum eftir seinna stríð og er sá nýi mjög áþekkur honum í útliti. Þegar sá nýi var kynntur í Mílanó í sumar var borgin bókstaflega á öðrum endanum í hátíðarhöldum og beinar sjónvarps- og Netútsendingar frá öllu saman sem m.a. náðust á Íslandi.
Niðurstaðna Euro NCAP um árekstrarþol þessa nýja bíls var því beðið með talsverðri eftirvæntingu og hlýtur hinn góði árangur að vekja Fiat-mönnum mikla gleði þar sem svo mikið hefur verið lagt undir við hönnun, byggingu og markaðssetningu þessa nýja smábíls og arftaka merks tímamótabíls.
Fyrir vernd fullorðinna hlaut Fiatinn 35 stig af 40 mögulegum sem staðfestir að Fiat hefur hvergi slegið af öryggiskröfum til bílsins þótt smár sé. Til samanburðar hlaut Renault Twingo 28 stig og þar með fjórar stjörnur sem vissulega er fyllilega viðunandi, ekki síst í samanburði við gamla Twingóinn sem var miklu síðri í þessu tilliti.
Kia Cee’d er í þeim stærðarflokki fólksbíla sem nefndur er Golf-flokkurinn eftir VW Golf. Hann er hannaður í evrópskri hönnunarmiðstöð Kia og byggður í glænýrri bílaverksmiðju Kia í Slóvakíu. Bíllinn hefur fengið ágæta dóma hjá evrópskum bílablaðamönnum og nú þegar fimm stjörnurnar eru í höfn með 34 stig að baki má allt eins búast við því að áhugi evrópskra bílakaupenda eflist. Kia Cee’d fékk auk þess fjórar stjörnur fyrir vernd barna í bílnum samanborið við Fiatinn sem hlaut þrjár stjörnur fyrir þann þátt.
Þá er loks að nefna Peugeot 308. Að baki stjörnunum fimm fyrir vernd fullorðinna í bílnum er Peugeot 408 með 34 stig eins og Kia Cee´d. Fyrir vernd barnanna hlut Peugeotinn fjórar stjörnur en Renault Twingo enga, því að ekki reyndist unnt að koma barnaöryggisbúnaði fyrir í honum nema að breyta stöðu framsætis fyrir framan barnið umfram það sem prófunarreglur EuroNCAP mæla fyrir um.
Framkvæmdastjóri Euro NCAP; Adrian Hobbs segist sérlega ánægður með styrkleika nýju bílanna Fiat 500 og Kia Cee’d og vernd fullorðinna í bílunum. Það sé gleðilegt að fá það staðfest einu sinni enn að það er hægt að byggja smábíla þannig að þeir geti varið þá sem í þeim ferðast, beri slys að höndum. Ástæða sé til þess að óska Kia til hamingju með sinn fyrsta fimm stjörnu bíl og bjóða velkominn í hóp þeirra bílaframleiðenda sem setja öryggi viðskiptavina sinna á oddinn. Sjá nánar á heimasíðu EuroNCAP hér.