Fiat á ný í Ameríku
Jay Leno skemmtikraftur og mikill bílaáhugamaður ritar grein í bandaríska tímaritið Popular Mechanic um samruna Fiat og Chrysler. Í greininni fagnar Leno því að Fiat muni aftur verða fáanlegur í Bandaríkjunum. Opnun Bandaríska markaðarins fyrir Fiat eigi eftir að styrkja hið gamlagróna ítalska vörumerki og Fiat eigi eftir að auðga Bandaríkin með merkilegum bílum. Í Evrópu sé Fiat ekki síst þekkt fyrir litla og neyslugranna bíla sem Chrysler einmitt hafi aldrei byggt.
Jay Leno milli Fiat 1100 frá 1959 tv. og Fiat Topolinu frá 1937 th. |
Jay Leno á tvo klassíska Fiat bíla. Annar þeirra er Fiat Topolino frá 1937 með opnanlegum toppi og örsmárri 569 rúmsm, 13.5-hestafla fjögurra strokka vél. Hinn er Fiat Millecento stallbakur frá 1959 með 1100 rúmsm, 43 hestafla vél. Síðarnefndi bíllinn var vinsæll fjölskyldubíll í Evrópu á sínum tíma svipað og Ford Fairlane eða ódýrustu gerðir Ford Galaxie voru í Bandaríkjunum. „Þokkalega bjargálna fjölskyldufeður á Ítalíu árið 1959 fengu sér gjarnan Fiat Millecento sem var fjögurra dyra stallbakur með fjögurra gíra handskiptingu á stýrisleggnum, útvarpi og tveggja hraða miðstöðvarblásara og er þá einungis fátt talið af fáanlegum búnaði bílsins því Fiat hefur alltaf verið ríkt af hugmyndum,“ segir Jay Leno.
„Fiat kom fyrst fram með Topolino (litlu músina) árið 1936 og alls seldist bíllinn í hálfri milljón eintaka. Þetta var fyrsti fólksvagninn því að sjálfur Fólksvagninn eða VW bjallan kom ekki á almennan markað fyrr en eftir stríðið. Topolino var snilldarlega hannaður. Hann var örsmár en samt með nóg höfuðrými fyrir hávaxinn karlmann með pípuhatt á höfði. Þá er þetta einn örfárra bíla sem hafði rafal sem var lengri en sjálf vélin. Vatnskassinn var fyrir aftan vélina svo hægt væri að hafa framendann og grillið straumlínulagaðra. Neitt þvílíkt gaf nokkru sinni að líta í amerískum bílum þess tíma.
Topolino bíllinn var að sönnu ekki aflmikill og hámarkshraðinn var einungis 85 km á klst. og ég hef getað komið mínum Topolino í 80. En það fyrirfinnast ekki margir bílar sem eru þannig að hver sem er ræður við að taka úr vélina og labba með hana inn í eldhúsvask til að þvo hana. Topolino er líkastur stóru leikfangi. Þá tilfinningu fékk maður aldrei gagnvart VW bjöllunni.
Það er sterkt samhengi milli þess hvaðan bílar eru og þess hvernig þeir eru í akstri og notkun. Ítalskir bílar, sérstaklega Fiat og Alfa Romeo eru byggðir til að notast í hlýju loftslagi. Það er því ekkert skrýtið að olíugangar í vélinni séu þröngir því að olían sem um þá streymir er þunnfljótandi. En í Nýja Englandi þar sem vetrarkuldar eru miklir er þetta ekki gott. Þar sest maður inn í Fiatinn eða Alfa Rómeóinn, snýr lyklinum og vélin varla mjakast. Þú pumpar bensíngjögfinni hálfa leið niður í gólf þrisvar-fjórum sinnum til að fá vélina til að taka við sér. Hún rétt snýst því að olían er ísköld, seigfljótandi og þykk eins og sýróp út úr ísskáp og við þetta smyrjast legurnar í vélinni ekki sem skyldi. Þetta er ástæða þess að vélarnar entust oft stutt í Fiat áður fyrr. Galdurinn við að eiga eldri gerðir ítalskra og margra evrópskra bíla er sá að ræsa bílinn, láta vélina ganga eins rólega og hægt er í svona tvær mínútur eða þangað til olíuþrýstimælirinn hefur mjakast af núllinu og farinn að sýna fullan þrýsting. Þá fyrst er óhætt að aka af stað.
Á árunum 1950 til 1970 þóttu þeir sem yfirleitt áttu bíla, hafa komið ár sinni vel fyrir borð í lífinu. Þar af leiðandi mátu menn bíla sína mikils og meðhöndluðu þá vel og gengu um þá eins og heimili sín. Öðru máli gegndi í Ameríku. Þar var hægt að kaupa sér notaðan og vel gangfæran bíl á þetta 50 dollara. Amerísku bílarnir voru eiginlega „ofbyggðir“ og því endingarbetri. Í Bandaríkjunum var enginn „lítraskattur“ lagður á sprengirými vélarinnar og bensínið var hræódýrt. Í bílunum okkar voru stórar hæggengar vélar (mjög hæggengar) sem entust nánast endalaust og minnst 160 þúsund kílómetra
Evrópsku bílarnir voru með hraðgengar vélar og þeir voru ekki úti á hraðbrautum allan liðlangan daginn. Hefðirðu reynt að segja Evrópumanni það árið 1959 að hægt væri að keyra Fiat stanslaust í fimm klst á 120 km hraða milli Los Angeles og Las Vegas hefði hann neitað að trúa þér. Fiatbílar voru ekki byggðir til slíkrar notkunar. Þeir voru ekki byggðir fyrir bandaríska markaðinn og aðstæðurnar og ekki heldur aðlagaðir aðstæðunum. Þeir voru því ekki sérlega góðir bílar í þeim skilningi.
Á þessum árum voru því allir bílar sem voru byggðir utan Bandaríkjanna álitnir frekar vondir bílar. Stálið sem Fiat notaði var heldur ekki gæðastál og vildi mikið ryðga. Aukinheldur var þjónusta við Fiat eigendur ekki góð. Margir vina minna áttu Fiat 124 frá því seint á sjöunda og byrjun áttunda áratugarins. Þótt þetta væru ágætis bílar miðað við verð þá var bráðnauðsynlegt að þekkja einhvern sem gat gert við þá. Ef þú lést Bandaríkjamann með bandaríska skrúflykla í það að eiga við bolta og skrúfur Fiatsins með millimetramáli og jafnvel skrúfa í hann nýja bolta með tommugengjum þá hefðirðu ekki átt að vera hissa þótt hann læki olíu á eftir.
Fólk sem nú er orðið 55 ára eða eldra tengir nafnið Fiat við skammstöfun sem stendur fyrir, „Fix It Again Tony.” (Gerðu aftur við hann Tony). Yngra fólk hefur aldrei heyrt þetta og lítur á evrópska og japanska bíla sem gæðavarning. Ég held því að tíminn hafi læknað „sárin“ og hin neikvæðu hugrenningagrtengsl við Fiat nafnið séu úr sögunni. Þegar ég var barn talaði pabbi um Fiat og Mercedes Benz sem útlandadót. Hann sagði gjarnan að ekki væri hægt að fá varahluti í þetta útlandadót og auk þess þyrfti ítalska vélvirkja til að gera við dótið. Sama álit hafði hann ala tíð á japönskum varningi hvort heldur væri það Honda eða Sony.. Í hans huga var þetta allt saman eins og litlu bambusregnhlífarnar sem stundum eru settar í kokkteilglös á börum. Þetta var varningur frá þjóðum sem tapað höfðu stríðinu og framleiddu draslvarning.
En þetta er breytt. Ég held að við eigum eftir að sjá í náinni framtíð Fiatumboð eða búðir þar sem þú getur keypt þér Fiat 500. En auk þess þá muni fást þar flottir jakkar og expressovélar, hattar og húfur auk bílanna. Sumir segja reyndar að nýtt bílmerki sé ekki beint það sem Bandaríkin vanti um þessar mundir. En sannleikurinn er sá að bílamerkjum hefur verið að fækka allt frá árinu 1912. Nú kveina menn undan því að Pontiac sé ekki lengur til og ekki Oldsmobile. En þegar ég var ungur þá hætti DeSoto, síðan Nash, Rambler Studebaker og Hudson. Fleiri bílmerki dóu drottni sínum á sjöunda áratuginum en fyrirfinnast í dag.
Þessvegna óska ég Fiat velgengni. Samkeppni er af hinu góða. Corvette ZR1 hefði ekki orðið til ef ekki hefði komið Viper. (500 hestafla bílar. Er það ekki nóg kannski?) Því fleiri lið sem keppa, þeim mun skemmtilegra verður það. Yrðum við ekki leið á hornaboltanum ef bara Red Sox spilaði allt keppistímabilið gegn Yankees? Ansi yrði það leiðigjarnt.