Fiat herjar í austurveg
Reuters fréttastofan greinir frá því að stjórnendur Fiat/Chrysler og rússneska bankans Sberbank hafi undirritað viljayfirlýsingu um samstarf við framleiðslu og markaðssetningu Jeep-bíla í Rússlandi. Reuters hefur þetta eftir ítalska dagblaðinu Corriere della Sera.
Eins og flestir bílaframleiðendur hefur Fiat/Chrysler samsteypan rennt hýru auga til hins ört vaxandi bílamarkaðar í Rússlandi, ekki síst þar sem stöðnun ríkir á evrópskum bílamarkaði.
Hugmyndin mun vera sú að stofna sérstakt hlutafélag sem að 80% verði í eigu Fiat/Chrysler. Í nafni nýja félagsins verði svo byggð stór bílaverksmiðja í St. Pétursborg eða gömlu Leníngrad sem framleiði árlega 120 þúsund Jeep bíla. Önnur bílaverksmiðja verði svo síðarmeir byggð í Moskvu.