Fiat í bílaleigustarfsemi
Borgarstjóri Mílanóborgar á N. Ítalíu sagði frá því á fundi nýlega að Fiat væri að undirbúa stofnun bílasamlags í borginni. Daimler, móðurfélag Mercedes Benz var eitt hið fyrsta til að stofna til bílasamlaga í helstu borgum Evrópu. Bílarnir þar eru af Smart gerð og eru meðlimum samlagsins til reiðu í hvert sinn sem þá vantar bíl um skemmri eða lengri tíma. Automotive News Europe greinir frá þessu.
Bílasamlög af þessu tagi kallast car-sharing. Miðlun farartækjanna til skráðra meðlima samlagsins fer fram á Netinu að mestu eða öllu leyti og þá í gegn um tölvu eða snjallsíma. Kosturinn við þetta er auðvitað sá að íbúar þröngbýlla evrópskra borga geta nálgast bíla til afnota þegar þeir þurfa þess með, án þess að þurfa að eignast bílinn og síðan að reka hann og ekki síst geyma hann einhversstaðar, oft fyrir ærið fé. Bílasamlagið leysir fólk undan þessu. Það sér um að halda bílunum við og þjónusta milli þess sem þeir er í notkun, sem og að geyma þá þar sem samlagsmeðlimir geta nálgast þá einhversstaðar í næsta nágrenni sínu.
Evrópskir bílaframleiðendur leita nú allra leiða til að ná athygli ungs fólks sem ekki hefur efni eða áhuga á að kaupa sér bíla. Þessi hópur hefur farið ört stækkandi undanfarin ár. Innan hans er ekki síst ungt fólk sem vill búa miðsvæðis í borgunum og leggur meira upp úr því að eiga góða tölvu sem er í hraðvirku og traustu Netsambandi, en því að kaupa, eiga og reka bíl. En um leið og bílasala til unga fólksins dregst saman hefur efnahagskreppan leikið evrópska bílaiðnaðinn hart og með minnkandi sölu og framleiðslu nýrra bíla dregst atvinna saman og atvinnuleysi eykst og er þessa stundina með því mesta í S. Evrópu frá stríðslokum 1945.
Bílasamlög eru eitt þeirra ráða sem evrópsku bílaframleiðendurnir grípa til í þessum vanda. Daimler leigir út Smart Fortwo bíla í um12 af stærstu borgum Evrópu og 10 bandarískum og kanadískum borgum og Fiat er að undirbúa opnun bílasamlaga í nokkrum fleiri borgum auk Milano. Í Milano eru fyrir bílasamlögin GuidaMi og e-Vai. Hið fyrrnefnda er rekið af almannasamgangnafyrirtæki borgarinnar; ATM og hið síðarnefnda af lestafyrirtækinu Trenord.
Ford, Toyota, Volkswagen, Renault og PSA/Peugeot-Citroen eiga ennfremur aðild að bílasamlögum í mörgum stærstu borgum Evrópu. Meðlimir evrópsku bílasamlaganna eru nú um ein milljón talsins en fer ört fjölgandi. Reiknað er með að árið 2020 verði þeir orðnir 15 milljónir.