Fiat hunsaði þýskan pústfund
Þýsk yfirvöld hafa undanfarið boðað bílaframleiðendur til fundar við sig um útblástur og eyðslu bíla í kjölfar niðurstaðna rannsókna sem hafa sýnt að bæði mengunar-og eyðslutölur sem liggja til grundvallar gerðarviðurkenningu mikils fjölda bíla eru of lágar og þar með rangar.
Þýska umferðarstofan KBA sem heyrir beint undir samgönguráðherrann sem nú er Alexander Dobrindt, hefur að undanförnu kallað fulltrúa bílaframleiðendanna inn til yfirheyrslu um útblástursmál og svindlbúnað sem fegrar eyðslu- og mengunargildi rétt á meðan bílarnir eru mældir en gerir mengunarvarnarbúnað bílanna óvirkan þess utan. Um slíkt komst fyrst upp varðandi Volkswagen-dísilbíla og síðan margar fleiri bíltegundir. Í nýliðinni viku kallaði KB fulltrúa Opel og Fiat til fundar um þessi mál, en fulltrúar Fiat boðuðu forföll á síðustu stundu og mættu ekki.
Bloomberg fréttastofan greinir frá þessu og segir að meginskýringin sem Fiatmenn hafi gefið á fjarveru sinni sé sú að þýskum yfirvöldum komi málið ekkert við. Fiat sé ítalskt og þangað nái lögsaga þýskrar stofnunar ekki. Alexander Dobrindt samgönguráðherra Þýskalands segir að þessi framkoma Fiat sé óskiljanleg og sýni að samstarfsvilji sé enginn. Hjá Fiat ætli menn sér greinilega að láta eins og framkomnar handfastar ásakanir á hendur þeim séu ekki til.
Opel mætti hins vegar til fundar við KB. Forsvarsmenn Opel hafa viðurkennt að í Opel Zafira dísilbílunum sé hugbúnaður sem slekkur á mengunarvarnabúnaði bílanna við tiltekinn hraða bílsins, hitastig og loftþrýsting (millibör). En jafnframt því að viðurkenna tilvist þessa búnaðar hafa Opelmenn sagt að engar reglur og engin lög hafi verið brotin með þessu. Búnaðurinn sé fullkomlega löglegur. Því eru þýsk yfirvöld ekki sammála. Alexander Dobrindt segir að Opel-búnaðurinn sé því aðeins löglegur að hann sé til þess að verja bílvélina yfirvofandi eyðileggingu. En þannig sé búnaðurinn hreint ekki hugsaður.
Á fundinum var Opel skikkað til að gefa innan tveggja vikna ítarlegar upplýsingar um það hvort þennan umrædda hugbúnað sé að finna í nýja Opel Astra bílnum sem um þessar mundir selst eins og heitar lummur um alla Evrópu.