Fiat og Chrysler semja um samvinnu

http://www.fib.is/myndir/Chrysler-logo.jpghttp://www.fib.is/myndir/Fiat_logo.jpghttp://www.fib.is/myndir/Nissan-logo.jpg
Eru þeir allir á leið í eina sæng?

Þýskir fjölmiðlar greina frá því að  samningaviðræður milli Fiat og Chrysler um samvinnu í bílaframleiðslu í Bandaríkjunum séu komnar vel á veg. Fiat hyggst framleiða Alfa Romeo bíla.

Fiat Group hefur verið að leita að bílaverksmiðju í Bandaríkjunum og Chrysler, eins og bæði GM og Ford eiga nokkrar slíkar á lausu sem búið er að loka. Ætlun Fiat hefur verið að markaðssetja Alfa Romeo á ný í Bandaríkjunum. En vegna þess hve gengi Bandaríkjadollars er lágt þykir lítið vit í því að byggja bíla í Evrópu í evruhagkerfi og flytja þá út til Bandaríkjanna og selja fyrir dollara. Það geti engu skilað nema tapi.

Alfa Romeo naut mikils álits í Bandaríkjunum upp úr miðri síðustu öld en hefur ekki verið í boði þar um talsvert langt árabil.

En Chrysler hefur verið í samningum við fleiri því að samningar hafa tekist við Nissan um aðstoð við hönnun og framleiðslu á nýjum smá- og millistærðarbílum fyrir Bandaríkjamarkað. Chrysler endurgeldur svo Nissan greiðann með því að aðstoða við að koma nýjum pallbíl fyrir Nissan í framleiðslu. Sá bíll er einkum hugsaður fyrir Bandaríkjamarkað.