Fiat ræður nú Chrysler
Sergio Marchionne forstjóri Fiat/Chrysler greiðir á næstu dögum bandarísku ríkisstjórninni 500 milljónir dollara fyrir 6 prósenta hlutabréf ríkisins í Chrysler. Þetta er lokahluti láns sem ríkisstjórn Obama forseta lagði í Chrysler til að bjarga fyrirtækinu frá því að fara endanlega á hausinn árið 2009. Þegar greiðslan hefur verið innt af hendi á Fiat 52 prósent í Chrysler Group.
Chrysler var í raun gjaldþrota árið 2009 en ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Kanada sáu til þess að reksturinn yrði ekki hreinlega aflagður með því að leggja honum til 12,5 milljarða dollara. Í kjölfarið hófst samstarf Fiat og Chryslers undir stjórn Sergio Marchionne. Og nú tveimur árum síðar hefur Fiat greitt þessa upphæð niður og jafnframt keypt upp fyrrnefndan 6% hlut hins opinbera í Chrysler.
Timothy Geithner fjármálaráðherra Bandaríkjanna segir við fjölmiðla að af milljörðunum 12,5 sem ríkisstjórnin lét af hendi til Chryslers hafi 1,3 milljarðar verið styrkur eða víkjandi lán sem hann reikni ekkert sérstaklega með að fá til baka. Upphæðin hafi nefnilega í raun skilað sér á þann hátt að bæði Chrysler og GM sem bæði voru að hruni komin, hafi nú náð vopnum sínum svo ótrúlega vel að bæði séu á bullandi uppleið með ört vaxandi markaðshlutdeild á heimavelli og fjöldi nýrra starfa í hinum þjóðlega bandaríska bílaiðnaði hafi skapast.
Sergio Marchionne stjórnar bæði Fiat og Chrysler og hefur óneitanlega lyft grettistaki. Hann segist stefna að því að auka sölu beggja fyrirtækjanna um tæpan helming fyrir árið 2014. Samtals seljast 3,6 milljónir Fiat og Chryslerbíla nú en stefnan er á 6,6 milljónir bíla fyrir árið 2014.
Hin tæknilega Fiat/Chrysler samvinna hefur vissulega snúið tapi í hagnað auk þess að skila betri bílum með lægri bilanatíðni og færri vandamál. Samvinnan er líka að skila fjölbreyttara úrvali bíla bæði austan og vestan við Atlantshafið á þann hátt að Chrysler- og Dodgebílar eru nú fáanlegir í Evrópu undir merkjum Fiat og Lancia og Fiat- og Alfa Romeo-bílar eru að koma á Bandaríkjamarkað.