Fiat sendibílar fyrir Opel
Fulltrúar Fiat og Opel undirrituðu í fyrradag samninga um að Fiat byggi a.m.k. 250.000 sendibíla af Doblo gerð, fyrir Opel. Bílarnir verða byggðir í verksmiðju í Tyrklandi sem Fiat á og rekur ásamt tyrkneska fjárfestingafyrirtækinu Koc Holding sem á um 40% bílaiðnaðarins í Tyrklandi. Fiat framleiðir bíla fyrir Tyrklandsmarkað undir vörumerkinu Tofas.
Fiat Doblo - kemur í stað Opel Combo. |
Fiat Doblo bílarnir eru bæði framleiddir sem hreinir sendibílar en líka innréttaðir sem fjölskyldubílar. Sami háttur verður hafður um þá bíla sem Opel fær. Þeir verða auk þess merktir og seldir sem Opel en ekki sem Fiat eða Tofas.
Opel hefur til þessa framleidd sambærilega bíla undir vörumerkinu Opel Combo, en með þessu samningi við Fiat verður framleiðsla á Opel Combo lögð niður. Nýju Opel „Doblo“ bílarnir verða í boði á öllum markaðssvæðum Opel og Vauxhall innan og utan Evrópu. Í Bandaríkjunum verða þeir hins vegar ekki í boði.
Samkvæmt samningnum um framleiðsluna verða fyrstu 6.000 bílarnir fyrir Opel afhentir í desember 2011. Í framhaldinu er stefnt að vaxandi framleiðslu upp í 250 þúsund bíla árlega að því er fram kemur í frétt um málið frá Fiat. Á þessari stundu er ársframleiðslan á Fiat Doblo í tyrknesku verksmiðjunni yfir 100 þúsund eintök.