Fiat yfirtekur Chrysler í Evrópu
Samrekstur Fiat í Torino og Chrysler í Detroit er stöðugt að eflast og stykjast. Í Evrópu er nú það að gerast í þessu „hjónabandi“ að sala og þjónusta við Chrysler, Jeep og Dodge bíla sem til þessa hefur verið hjá Daimler AG, færist til Fiat. Þessi tilfærsla byrjar um næstu mánaðamót.
Þessi mikla aðgerð byrjar á Ítalíu, heimalandi Fiat, en gert er ráð fyrir því að framkvæmdin öll taki tæp tvö ár. Fyrst flyst sala Chryslerbílanna yfir til söluumboða Fiat en þvínæst varahluta- og viðgerðaþjónusta. Lagerhald allt sem og flutningar og dreifikerfi bíla og varahluta verður endurskipulagt. Í fyrsta áfanga þessara breytinga byrjar Fiat á því að yfirtaka sölu og þjónustu Chrysler, Jeep og Dodge bíla í 11 Evrópuríkjum. Um leið verða sölufyrirtæki Chryslers á Ítalíu, Þýskalandi, Frakklandi, Spáni, Austurríki, Belgíu, Hollandi Póllandi, Svíþjóð og Sviss lögð niður og um 400 af þeim starfsmönnum sem þar starfa nú verða starfsmenn Fiat.
Talsmaður Fiat segir í viðtali við Automotive News Europe að í öðrum Evrópulöndum en framantöldum verði sölu- og dreifingarsamningar við söluaðila Chryslers endurnýjaðir en nýju samningarnir verði við Fiat en ekki Chrysler Group. Ástæðan sé sú að öll dreifing Chryslerbíla í Evrópu sé nú komin á forræði Fiat.
Á sl. ári seldi Chrysler Group 54,334 bíla í Evrópu allri en það var 41.6 prósenta samdráttur frá árinu á undan. Sala Fiat Group á Fiat-, Lancia og Alfa Romeo bílum jókst hins vegar um 6.3 prósent á síðasta ári og alls seldust 1.25 milljón bílar.