FÍB-Aðstoð - gott að komast af verkstæðinu og hjálpa fólki
Á annan áratug hefur Erlingur Gíslason sinnt FÍB Aðstoð á Hellu og á svæðinu þar um kring. Erlingur segir starfið vera skemmtilegt og gefandi í hinum ýmsu aðstæðum sem koma upp. Flest útköll fara í að aðstoða erlenda ferðamenn yfir sumartímann og þá aðallega í bilunum sem upp koma. Gríðarleg umferð ferðamanna fer um Hellu.
„Auðvitað varð maður var við aukningu í þessari aðstoð þegar straumur ferðamanna til landsins jókst jafnt og þétt. Um Hellu fer gríðarleg umferð ferðamanna á hverjum degi svo að óneitanlega finnum við fyrir því í starfsemi okkar hér á svæðinu. Íslenskir ferðamenn óska einnig eftir aðstoð en hún er helst í formi dekkjaskipta eða í rafmagnsleysi. Einkum snýr starfsemin þó að erlendum ferðamönnum,“ sagði Erlingur.
Erlingur sagðist aðstoða bílaleigurnar mikið. Ósk um aðstoð þar sem ökumenn eru búnir að festa sig uppi á hálendi koma öðru hvoru inn á borð til okkar. Við bregðumst skjótt við og yfirleitt gengur þetta vel. Hann sagðist vera ágætlega tækjum búinn í þetta starf en hann hefur yfir að ráða Dodge Ram á 35 tommum sem hafi reynst afar vel til starfans.
„Ég er samhliða FÍB–aðstoðinni búinn að reka bílaverkstæðið EET bílar ehf. frá 1996. Það er mín aðalvinna en afskaplega mikil tilbreyting felst í því að skjótast í FÍB–Aðstoð. Það er gott að komast af verkstæðinu í annað umhverfi og hjálpa fólki þegar kallið kemur. Það er mikið öryggi fyrir félagsmenn í FÍB að vita af þessari aðstoð á svæðinu,“ sagði Erlingur Gíslason á Hellu.