FIB Aðstoð um allt landið
Líkt og undanfarin 62 ár verður FÍB með þjónustuvakt um verslunarmannahelgina fyrir bíleigendur. Hjálparþjónusta FÍB miðast við að aðstoða bíleigendur á ferðalagi sem þurfa á þjónustu bílaverkstæðis að halda eða vantar varahlut. FÍB aðstoðarbílar verða á fjölförnustu leiðum og umboðsmenn félagsins um land allt eru í viðbragðsstöðu.
FÍB hefur, eins og undangengnar verslunarmannahelgar, kallað út liðsauka aðstoðarbíla sem verða á vegum landsins, félagsmönnum og vegfarendum til halds og trausts.BL hefur góðfúslega lánað félaginu nýlega bíla en þessir auka-liðsmenn FÍB-Aðstoðar verða á þeim um verslunarmannahelgina og kann félagið fyrirtækinu bestu þakkir fyrir velvild þess í garð bifreiðaeigenda yfir mestu ferðahelgi ársins.
Víða um land verða verkstæði opin vegna neyðarþjónustu og bílaumboð og stærri varahlutasalar hafa góðfúslega skipulagt bakvaktir vegna varahlutaafgreiðslu fyrir milligöngu FÍB.
Skrifstofa FÍB, sími 414-9999, hefur milligöngu varðandi aðstoðarbeiðnir um verslunarmannahelgina og þar verður vakt frá föstudegi til síðdegis á mánudag.
Þegar ekki er vakt á skrifstofunni svarar FÍB AÐSTOÐ í síma 5-112-112.
FÍB óskar öllum vegfarendum góðrar ferðar um verslunarmannahelgina og ráðleggur bíleigendum að yfirfara bíla sína áður en lagt er upp í langferð. Sjá nánar hér.