FÍB blaðið á leið til lesenda
FÍB blaðið, síðasta tölublað þessa árs er nú í lokavinnslu og pökkun og verður því dreift til félagsmanna í byrjun næstu viku.
Að vanda er FÍB blaðið stútfullt af efni og meðal efnis sem margir hafa beðið eftir er ný vetrardekkjakönnun. Vetrardekkjakönnun þessi er gerð fyrir atbeina nokkurra bílatímarita og systurfélaga FÍB í Evrópu.
Könnunin sýnir að ónegld vetrardekk eru stöðugt að verða betri og hafa trúlega ekki verið betri áður og sérlega þó jafnari hvað varðar æskilega vetrareiginleika. Stærstu framleiðendur dekkja hafa lagt mjög mikila áherslu á rannsóknir og tilraunir með ónegld vetrardekk eftir því sem fleiri og fleiri lönd ýmist banna negld vetrardekk eða leyfa með ýmsum takmörkunum. Eftir því sem ónegldum vetrardekkjum hefur fleygt fram fækkar sífellt tegundum og gerðum negldra dekkja og markaðshlutdeild þeirra og framboð minnkar.
Af þessum ástæðum er einvörðungu greint frá niðurstöðum á gæðum og eiginleikum ónegldra vetrardekkja í FÍB blaðinu að þessu sinni en hægt er að lesa um niðurstöður varðandi negldu dekkin hér á vef FÍB með því að smella hérna.
Af öðru efni blaðsins má nefna bílaprófanir, innlendar og erlendar fréttir tengdar bílum umferð og umferðaröryggismálum. FÍB blaðið er einn af kostum félagsaðildar að FÍB og er dreift til félagsmanna þeim að kostnaðarlausu. Blaðið er ekki á almennum markaði.