FÍB hefur þungar áhyggjur af yfirvofandi hækkunum
Í fjárlagafrumvarpi sem fjármálaráðherra kynnti í gær verður olíu- og bensíngjald jafnað á næsta ári. Í kjölfarið fór af stað mikil umræða en bifreiðaeigendum finnst ansi hart að þeim vegið enda ljóst að rekstrarkostnaðurinn sem lítur að bílnum mun hækka töluvert.
Bensínlítrinn mun hækka um tæpar 9 krónur og dísilolía um 21,80 krónur. Þetta er umtalsverð hækkun sem mundi skila ríksisjóði hátt í 6 milljörðum króna í aukar skatttekjur af bílaeldsneyti með virðisaukaskatti.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu munu tekjur ríkissjóðs af bílasköttum hækka um 19% á milli ára miðað við fjárlögin 2017 eða ríflega 8,1 milljarð króna fyrir utan hækkun virðisaukaskatts af bifreiðum og umferð. Miðað við nýja áætlun fjármálaráðuneytisins um tekjur ríkissjóðs í ár þá er hækkunin um 13% á milli ára.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB var í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær þar sem hann lýsti yfir þungum áhyggjum af yfirvofandi hækkunum sem hann sagði miklar og kæmu harkalega niður á bifreiðaeigendum.
Hér á má hlusta á viðtalið við Runólf Ólafsson í heild sinni Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni þar sem komið er inn á marga þætti sem lúta að þessari hækkun sem fram undan er.