FÍB hlýtur alþjóðlega viðurkenningu fyrir EuroRAP
Á aðalfundi EuroRAP (European Road Assessment Program) sem haldinn var í Portúgal í nýliðnum mánuði var FÍB heiðrað sérstaklega fyrir framúrskarandi starf við EuroRAP vegrýnina. Ísland varð fyrst Evrópulanda til að ljúka skoðun og yfirferð allra meginleiða í vegakerfi sínu og meta þær hættur sem þar fyrirfinnast sem og hættustig þeirra fyrir vegfarendur.
John Dawson stjórnarformaður EuroRAP tv. afhendir Runólfi Ólafssyni fyrir hönd FÍB, viðurkenningu Euro-RAP fyrir vel unnið starf við vegrýni á Íslandi. |
Þá var það ennfremur niðurstaða dómnefndar sem veitti verðlaunin að FÍB hefði samhliða góðum vinnubrögðum við sjálfa EuroRAP vegrýnina verið í forystu í því að búa til svokölluð áhættukort. Áhættukortin byggja á niðurstöðum vegrýninnar en þeim er komið á sérstök vegakort þar sem sjá má í sjónhendingu hversu mikil áhætta er því samfara að ferðast um tiltekna vegi og vegarkafla. Þessi áhættukort, þeirra á meðal íslensku áhættukortin eru nú orðin aðgengileg öllum á Internetinu. Þar geta vegfarendur skoðað þá vegi sem þeir hyggjast fara um, og séð hversu varasamir þeir eru að mati EuroRAP.
Það var John Dawson stjórnarformaður EuroRAP sem afhenti Runólfi Ólafssyni framkvæmdastjóra FÍB viðurkenninguna. Við það tækifæri tók hann það sérstaklega fram að athyglisvert væri að minnsta og fámennasta þjóðin innan EuroRAP samstarfsins hefði verið til fyrirmyndar og rutt öðrum brautir í þessum efnum.
Óhætt er að segja að árangur EuroRAP hér á landi er mikill og áþreifanlegur. Mun betur en nokkru sinni áður er gengið frá nýjum vegum og er nýi Lyngdalsheiðarvegurinn gott dæmi um það. Þar eru góðar vegaxlir, vegkantar og –fláar eru meira aflíðandi, góð vegrið eru til að varna því að ökutæki geti farið út af og lent í ræsum eða rekist á stórgrýti og fleiri háskalega hluti utanvegar. Þá hefur mikið verið gert í því að setja upp vegrið á eldri vegi við háskalega staði, bæði þar sem slys hafa orðið en einnig annarsstaðar þar sem slys gætu hugsanlega orðið, akstursstefnur hafa verið aðgreindar á fjölförnum vegum og margt margt fleira hefur verið gert sem of langt er upp að telja að sinni.
Starfsemi EuroRAP á Íslandi hefur lengstum notið styrkja frá bæði ríki og einkaaðilum enda er það ofviða tæplega 16 þúsund manna félagasamtökum að standa óstudd að jafn risavöxnu verkefni. Það er hins vegar í allra þágu að gera umferðina eins örugga og kostur er og þjóðhagsleg hagkvæmni þess að fækka slysum er ótvíræð og óumdeild.
Á myndinni hér að ofan má sjá einkennismerki þeirra stofnana og fyrirtækja sem lagt hafa FÍB lið á undanförnum árum við EuroRAP verkefnið, en þessir aðilar eru samgönguyfirvöld í gegn um Umferðarstofu og Vegagerðina. Bílaumboðið Askja, Good Year á Íslandi, Lýsing, N1, Samskip og VÍS hafa kostað kaup og rekstur EuroRAP bifreiðarinnar og Loftmyndir hafa lagt til kort og kortagrunna o.fl.