FÍB í sjónvarpsþættinum Landinn
FÍB hefur fengið mikil og jákvæð viðbrögð við sjónvarpsþættinum Landinn á RÚV þann 11. september sl. Hér má sjá þann hluta þáttarins sem lýtur að FÍB og EuroRAP á Íslandi.
Í innslaginu er rætt við Ólaf Kr. Guðmundsson tæknistjóra verkefnisins um EuroRAP vegrýnina hér á Íslandi, hvernig hún fer fram, tilganginn með henni og þann áþreifanlega árangur sem EuroRAP vegrýnin hefur borið. EuroRAP verkefnið hér á landi er alfarið á vegum FÍB en bæði opinberir aðilar og fyrirtæki hafa stutt það myndarlega.
Árangur EuroRAP er ekki síst fólginn í hugarfarsbreytingu sem orðið hefur hjá almenningi og yfirvöldum vegamála í landinu. Sú hugarfarsbreyting hefur sklilað vegfarendum og landsmönnum öllum betri vegum með minni slysahættu. Á því leikur ekki vafi
Megintilgangur EuroRAP kemur ágætlega fram í sjónvarpsþættinum, en hann er sá að skoða vegina og umhverfi þeirra út frá slysahættu, skilgreina háskastaði í vegakerfinu og benda síðan á leiðir til úrbóta. Þær upplýsingar sem safnast í sjálfri vegrýninni fara í tölvukerfi sem síðan vinnur úr þeim og skilar frá sér niðurstöðum og áhættumati m.a. á myndrænu og auðlæsilegu formi. Sjá nánar hér.