FÍB með í heimsátaki í þágu umferðaröryggis
Umferðaröryggisátak FIA; 3500 mannslíf hefur þann tilgang að hvetja ökumenn sem og alla aðra vegfarendur til að gæta betur að eigin öryggi og annarra í umferðinni. FÍB tekur þátt í að miðla boðskapnum til vegfarenda á Íslandi.
Á hverjum einasta degi árið um kring láta 3500 manneskjur lífið í umferðinni í heiminum. Til að skerpa almenna athygli á mikilvægi umferðaröryggis hafa heimssamtök bifreiðaeigendafélaga og mótorsports – FIA. hafið umferðarátakið 3500 mannslíf. Í því er fólk minnt á hvað það sjálft getur gert í málunum.
Í 50 ríkjum verða sett upp skilti og plaköt á áberandi stöðum eins og t.d. í strætisvagnaskýlum, á biðstöðvum almenningssamgangna og við fjölfarnar samgönguleiðir. Á plakötunum gefur að líta áminningar frá heimsþekktu fólki í íþróttum og menningarlífi til ökumanna um hvað þeir sjálfir geti gert til að bæta ástandið.
10 gullnar meginreglur
Hér á Íslandi er það FÍB sem kemur boðskap alþjóðaátaksins á framfæri og frá og með 25. júlí næstkomandi verða auglýsingar þess sýnilegar víða, m.a. í strætisvagnaskýlum og bæklingum sem dreift verður sem víðast. Á skiltunum gefur að líta hljómlistarmanninn Pharrell Williams, Formúlu 1 ökumennina Nico Rosberg og Fernando Alonso og hlaupadrottninguna Vanessu Low og áminningar þeirra til íslenskra ökumanna. Skilaboð Pharrell Williams eru; Ekki senda textaskilaboð við akstur. Nico Rosberg minnir á að áfengi og akstur fara ekki saman, Vanessa Low biður ökumenn um að halda athyglinni að fullu vakandi við akstur og Fernando Alonso minnir ökumenn og farþega á að spenna alltaf beltin þegar ferðast er í bíl. Áminningar fjórmenninganna eru hluti tíu gullinna meginreglna sem alltaf ber að halda í heiðri, en þær eru:
Aktu ekki yfir hámarkshraðamörkum.
Athugaðu hjólbarðana reglulega
Ekki lesa og senda SMS þegar þú ekur
Hafðu allan hugann og alla athyglina við aksturinn
Notaðu alltaf hjálm þegar þú ekur vélhjóli
Hafðu barnið alltaf í viðeigandi barnabílstól
Spenntu alltaf bílbeltið
Aktu ekki eftir að hafa neytt áfengis
Settu á þig endurskinsmerki þegar þú hjólar eða gengur
Hvíldu þig þegar þú finnur til þreytu í akstri