FÍB spyr stjórnmálaflokkanna um afstöðu þeirra til tekjuöflunar af bílum og umferð

Í aðdraganda alþingiskosninga sem verða laugardaginn 30. nóvember spyr FÍB flokkana sem sem bjóða fram í öllum kjördæmum á landsvísu um afstöðu þeirra til tekjuöflunar af bílum og umferð. Samgöngumál er ein af grunnstoðum þjóðfélagsins og ljóst að þessi málaflokkur mun verða í brennidepli fyrir kosningarnar. Flokkarnir brugðust vel við óskum FÍB að taka þátt og má sjá svö þeirra hér fyrir neðan. Ekki bárust svör frá Lýðræðisflokknum. FÍB kann flokkunum bestu þakkir fyrir skjót og góð viðbrögð.

 

A

Er flokkurinn hlynntur vegatollum til að fjármagna einstaka vegaframkvæmdir?

B

Hvaða afstöðu hefur flokkurinn til þess að vegatollum verði beitt til að stjórna umferð á höfuðborgarsvæðinu?

C

Hver er afstaða flokksins til þess að vegakerfið verði að öllu leyti fjármagnað með kílómetragjaldi?

 

 

Viðreisn:

Viðreisn styður beina gjaldtöku af vegamannvirkjum til að kosta framkvæmdir eða til að stýra álagi með s.k. flýtigjöldum. Valfrelsi skal vera forsenda gjaldtöku, þannig að það sé valkostur að greiða gjaldið ekki. Í tilfelli flýtigjalda þarf að standa til boða annar raunhæfur samgöngukostur, svo sem almenningssamgöngur af nægjanlegum gæðum. Hraða þarf orkuskiptum í samgöngum.

Stuðlað verði að hröðum orkuskiptum á öllum sviðum. Öflugasta og skilvirkasta verkfæri stjórnvalda til þess eru hagrænir hvatar á borð við kolefnisgjald sem leggist á alla losun, ásamt grænum áherslum í skipulagsmálum. Viðreisn leggur áherslu á tekjuhlutleysi í stað aukinnar skattheimtu þannig að kolefnisgjöldum verði mætt með samsvarandi lækkun á öðrum sköttum og gjöldum. Þannig verði hægt að ná mikilvægri sátt um loftslagsaðgerðir og tryggja að þeir borgi sem mengi.

Til að orkuskipti geti orðið að veruleika þarf að tryggja nægt framboð endurnýjanlegrar orku og öfluga innviði. Samhliða orkuskiptum er nauðsynlegt að auka fjölbreytni í samgöngum og nýta hagræna hvata til að styðja við virka ferðamáta og almenningssamgöngur.

Viðreisn vill að Ísland verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Þess vegna þarf að setja raunhæf markmið um hvenær nýskráningu á bensín- og díselbílum verði hætt. Það mun óhjákvæmlega verða nátengt því hversu hratt gengur að byggja upp innviði fyrir annan orkugjafa bifreiða.

Viðreisn leggur áherslu á að geta átt samtal og samráð við hagsmunaaðila um bestu lausnir sem miða að þessu markmiðum.

 

Vinstrihreyfingin grænt framboð:

VG telja að vegakerfið skuli byggt upp og viðhaldið úr sameiginlegum sjóðum og hafna hugmyndum um uppbyggingu grunnvegakerfis byggðri á vegatollum. Hreyfingin hefur ekki sérstaka stefnu með eða gegn vegtollum þegar kemur að einstaka vegaframkvæmdum.

Hreyfingin hefur ekki mótað sér sérstaka stefnu með eða á móti tafagjöldum til þess að hafa áhrif á umferð á höfuðborgarsvæðinu.

Kílómetragjald er ein leið til þess að fjármagna vegakerfið en gæta verður að útfærslu. Hreyfingin telur að útfæra þurfi nýjar leiðir til að afla fjármuna til að mæta gríðarmikilli og brýnni þörf á innviðauppbyggingu í samgöngum í landinu öllu. Óhjákvæmilegt er að horfa til þeirra breytinga sem orkuskipti í samgöngum munu hafa í för með sér á tekjustofna ríkisins, einkum skatta af sölu á eldsneyti. Við breytingu á fjármögnunarleiðum skal huga sérstaklega að því álagi og sliti á vegum og öðrum umferðarmannvirkjum sem þyngd, gerð og umhverfisáhrif hinna ýmsu ökutækja hafa í för með sér. Tryggja þarf að við slíkar breytingar verði landsmönnum ekki mismunað eftir búsetu og fjárhag.

 

Sósíalistaflokkurinn:

Sósíalistaflokkurinn er alfarið á móti vegatollum. Vegagerðin á að fjármagna allt vegakerfið, það er miklu dýrara fyrir einkaaðila að fjámagna stórar og dýrar framkvæmdir heldur en hið opinbera. Svokölluð “samvinnuverkefni” (PPP eða Public Private Partnership á ensku) í vegaframkvæmdum, s.s. Ölfusárbrú, eru miklu dýrari fyrir almenning. Reynslan frá Bretlandi sýnir að slíkar einkaframkvæmdir hafa kostað skattgreiðendur tugi milljarða meira en það hefði kostað að kosta framkvæmdirnar af opinberu fé. Stórar, nauðsynlegar framkvæmdir má vel fjármagna með lánum sem greidd verða upp með framtíðarsköttum.

Sósíalistaflokkurinn er á móti slíku. Er óréttlátt og mjög dýrt í framkvæmd og mismunar fólki eftir búsetu og efnahag.

Sósíalistaflokkurinn telur slíka fjármögnun almennt rétta. Hins vegar eru stór vandamál í framkvæmdinni. Það er t.d. ekki eðlilegt að lítill fjölskyldubíll borgi sama kílómetragjald og stór jeppi eins og sumar útfærslurnar á kefinu gerðu ráð fyrir. Það má vel hugsa sér ákveðna blöndu af kílómetragjaldi og bensíngjaldi þannig að sparneytnari bensín- og dísel bílar greiði minna. En grunnhugsunin er sú sama að kerfið verði einfalt í framkvæmd og réttlátt.

 

Miðflokkurinn:

Miðflokkurinn hefur lagt áherslu á að rjúfa þá kyrrstöðu sem er í uppbyggingu samgöngumannvirkja hér á landi. Til að það sé unnt er flokkurinn tilbúinn að skoða fjölbreytt úrræði þegar kemur að fjármögnun samgöngumannvirkja, bæði þegar kemur að útboðum og einnig þegar kemur að fjármögnun einstakra mannvirkja. Meðal annars þarf að skoða með hvaða hætti gjaldtöku verður best fyrir komið til að ýta undir notkun.

Miðflokkurinn leggur áherslu á að horft sé heildstætt, með raunsæjum augum, á samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Horfa verður til lausna sem bæta flæði umferðar, bæði með framkvæmdum á stofnbrautakerfinu og bættri ljósastýringu. Leitast þarf við að nýta fjármuni með skynsamlegum hætti

Það er flestum augljóst að ekki fer nægilegt fjármagn til vegaframkvæmda hér á landi þrátt fyrir að bílaeigendur séu skattlagðir verulega nú þegar. Miðflokkurinn sér fyrir sér að það sé hægt að beita ýmsum úrræðum við að fjármagna vegakerfið en mest um vert er að það sé gert af skynsemi og sanngirni.

 

Samfylkingin:

Samfylkingin vill að framkvæmdir í samgöngumálum verði áfram fjármagnaðar með almennum hætti í gegnum ríkissjóð. Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum getur sértæk staðbundin gjaldtaka þó komið að gagni og verið réttlætanleg. Mikilvægast er að frumkvæði að slíkri gjaldtöku komi frá nærsamfélagi, heimafólki sjálfu. Þá þarf markmiðið með gjaldtökunni að vera skýrt og tekjurnar af henni að nýtast beint til að ná settu marki.

Veggjöld til að flýta stórum framkvæmdum á samgönguáætlun ríkisins geta komið til greina þegar um er að ræða stórframkvæmdir á borð við jarðgangagerð og annað þess háttar. Ef sveitarfélög vilja flýta tiltekinni framkvæmd á samgönguáætlun geta þau tekið höndum saman um að hluti kostnaðar verði greiddur með veggjöldum en gera verður ráð fyrir lægri hlutdeild veggjalda á fáfarnari slóðum. Skilyrði fyrir þessu er að innheimta veggjalda falli niður þegar tekjur hafa staðið undir stofnkostnaði en lánsfé til framkvæmda má koma frá einkaaðilum eða lífeyrissjóðum.

Víða á Norðurlöndum, og í öðrum nágrannalöndum okkar, þekkjast slík gjöld í stærri borgum. Markmiðið er þá að stuðla að fjölbreyttari og betri samgöngum allra ferðamáta og draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar. Bæði gjaldtakan og tekjurnar sem af henni hljótast geta stutt við slík markmið. Í samkomulagi ríkisins við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2019 er gert ráð fyrir að sérstakt félag (Betri samgöngur) geti innheimt flýti- og umferðargjöld af þessu tagi á höfuðborgarsvæðinu.

Frumvarp fjármálaráðherra um kílómetragjald á ökutæki hlaut ekki afgreiðslu á Alþingi nú í nóvember. Frumvarpið var lagt fram í þeim tilgangi vega upp á móti tekjutapi ríkisins vegna rafvæðingar bílaflota landsmanna og áttu gjöldin að skila sjö milljörðum króna í ríkiskassann á næsta ári. Innheimta kílómetragjald á dísil- og bensínbíla frestast því að minnsta kosti um ár. Það er því ljóst að ekki verður mögulegt að fjármagna vegakerfið með kílómetragjaldi á næsta ári. Þar sem nauðsynlegt er að fara án tafar í viðhald og uppbyggingu á samgönguinnviðum er því ekki hægt að fara þá leið að fjármagna vegakerfið að öllu leyti með kílómetragjaldi fyrr en í fyrsta lagið árið 2026. Í dag eru fjárfestingar í samgöngum á Íslandi aðeins 0,5% af vergri landsframleiðslu. Í öðrum ríkjum OECD er meðaltalið um 1%. Samfylkingin stefnir á að fjárfestingar í samgöngum fari aftur upp í meðaltal OECD ríkja fyrir árið 2030 (sem er um 1% af vergri landsframleiðslu). Til þess að svo megi verða þarf að verja um 20 milljörðum til viðbótar á ári til nýfjárfestinga og viðhalds á samgönguinnviðum. Ljóst er að kílómetragjaldið eitt og sér mun ekki standa undir þeim markmiðum á næstunni en til framtíðar er Samfylkingin fylgjandi því að vegakerfið verði fjármagnað með kílómetragjaldi. Áður en innheimta kílómetragjalds á bensín- og dísilbifreiða hefst þarf þó að meta áhrif þess á þau tekjulægri og fólk sem býr í hinum dreifðari byggðum.

 

Framsóknarflokkurinn:

Framsókn styður að skoðaðar séu fjölbreyttar leiðir til að fjármagna nýjar vegaframkvæmdir og flýta fyrir uppbyggingu þeirra, en leggur áherslu á að slíkar aðgerðir séu réttlátar og taki mið af samfélagslegum áhrifum. Markmiðið er að bæta vegakerfið og tryggja öryggi vegfarenda um allt land.

Meðal slíkra leiða eru samvinnuverkefni (PPP) milli einkaaðila og hins opinbera við uppbyggingu innviða. Með slíkum verkefnum, sem almennt eru fjármögnuð að hluta til eða að fullu með vegatollum, er hægt að tryggja að samgönguverkefni, sem annars hefðu beðið lengur, verði byggð fyrr og samfélagið njóti ábata þeirra hraðar en ella. Nýta ber kosti þess að vinna stærri samgönguframkvæmdir sem samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila og/eða leita til lífeyrissjóða eftir lánsfé, sem um leið myndi veita lífeyrissjóðakerfinu trygga ávöxtun til langs tíma. Þau samvinnuverkefni sem hingað til hafa verið til skoðunar eiga það sameiginlegt að skapa mikinn samfélagslegan ábata með styttri ferðatíma. Við viljum horfa til slíkra verkefna hvað varðar mögulega vegatolla, svipað og gert var með Hvalfjarðargöng.

Framsókn hefur ekki lagt áherslu á stýringu umferðar með vegatollum. Flokkurinn horfir almennt til stærri verkefna hvað varðar lagningu vegatolla, og þá í samvinnuverkefnum eins og fjallað var um í svari við spurningu A. Flokkurinn leggur áherslu á að tryggja sveigjanleika og að hægt verði að flýta arðsömum framkvæmdum um land allt.

Framsókn leggur áherslu á að ljúka þurfi mótun framtíðarstefnu um fjármögnun vegakerfisins og huga að jafnræði í gjaldtöku. Fyrstu skref hafa verið tekin í endurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkisins af ökutækjum og umferð, en tekjur af hefðbundnum tekjustofnum hafa dregist verulega saman vegna orkuskipta.

Mikilvægt er að mæta þeirri viðhaldsskuld sem er í vegakerfinu og fjárfestingarþörf sem fyrirsjáanleg er á næstu árum. Þá er einnig mikilvægt að tryggja sveigjanleika og að hægt verði að flýta arðsömum framkvæmdum um land allt.

Hvort sem um er að ræða kílómetragjald eða aðra útfærslu þá er nauðsynlegt að farnar séu nýjar leiðir til að tryggja fjármögnun frekari framkvæmda, þróun vega og viðhald þeirra. Flokkurinn leggur áherslu á að endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkisins af ökutækjum og umferð, sérstaklega í ljósi orkuskipta.

 

Flokkur fólksins:

Við erum á móti vegatollum, þar sem þeir bitna harðast á þeim sem hafa lægstar tekjur og á fólki sem er búsett á landsbyggðinni.

Við erum á móti í því að vegtollum verði beitt til að stjórna umferð á höfuðborgarsvæðinu. Við erum á móti kílómetragjaldinu, þar sem það leggst þyngst á íbúa hinna dreifðu byggða sem þurfa að ferðast langt milli staða til að sækja t.d. opinbera þjónustu, sem með réttu ætti að vera aðgengileg í þeirra heimabyggð. Auk þess er kílómetragjaldið flóknara í innheimtu en þær leiðir sem við notum í dag, þ.e. bensín og olíugjald.

 

Sjálfstæðisflokkurinn:

Sjálfstæðisflokkurinn styður fjölbreytta fjármögnunaraðferðir til að flýta fyrir uppbyggingu samgöngumannvirkja. Þar á meðal er möguleiki á samstarfi við einkaaðila, sem getur m.a. falið í sér notkun vegtolla til að fjármagna einstakar framkvæmdir​. Flokkurinn leggur áherslu á að forgangsraða fjármagni í nauðsynlegar samgönguúrbætur og ljúka við stór verkefni eins og Sundabraut og tvöföldun helstu stofnæða frá höfuðborgarsvæðinu​​. Þrátt fyrir þetta hefur ekki verið tekið afdráttarlaust skref til þess að mæla með vegatollum sem almennri lausn, en þau gætu verið hluti af samkomulagi sem þjónar hagkvæmni og flýtir uppbyggingu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á fjölbreyttar samgöngulausnir sem tryggja frelsi í vali á samgöngumáta og stuðla að greiðu umferðarflæði​​. Í því skyni getur verið hagkvæmt og sanngjarnt að notast við vegatolla til að stjórna umferð á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að tryggja sanngjarna gjaldtöku og jafnræði.

Sjálfstæðisflokkurinn styður fjölbreyttar fjármögnunaraðferðir til að flýta fyrir uppbyggingu samgöngumannvirkja. Nauðsynlegt er að ráðast í breytingar á gjaldtöku á ökutækjum í umferð. Þó telur flokkurinn að hægt sé að fjármagna vegakerfið með fjölbreyttari hætti en í gegnum fjárlög Alþingis. Nauðsynlegt er að gjaldheimta af ökutækjum sé sanngjörn og gagnsæ.

 

Píratar:

Mikilvægt er að þessi aðferð sé ekki nýtt til þess að breyta forgangsröðun framkvæmda í vegakerfinu. Píratar eru hlyntir því að skoða danska módelið í fjármögnun sérstakra vegaframkvæmda eins og til dæmis með jarðgöng.

Hvaða afstöðu hefur flokkurinn til þess að vegatollum verði beitt til að stjórna umferð á höfuðborgarsvæðinu? Margar höfuðborgir hafa nýtt sér þessa leið til þess að beina fólki í aðra samgöngukosti eins og almenningssamgöngur. Þannig má ná fram því grundvallarsjónarmiði að þeir borga sem menga. Píratar eru tilbúnir að skoða þessar aðferðir, svo lengi sem hægt er að tryggja réttláta innleiðingu sem ekki kemur illa niður á tekjulægstu hópum samfélagsins.

Við erum ekki hlynnt því að vegakerfið verði að öllu leyti fjármagnað með kílómetragjaldi.

Afstaða FÍB

FÍB telur affarasælast fyrir hið opinbera jafnt og bíleigendur að kílómetragjald standi alfarið undir uppbyggingu og rekstri vegakerfisins. FÍB leggst gegn innheimtu vegatolla til að fjármagna vegaframkvæmdir að hluta eða í heild sinni, svo og til að stýra umferð.

  • Innheimta kílómetragjalds er hagkvæm og sanngjörn.
    • Afar vel hefur tekist til með innheimtu kílómetragjalds af hreinorkubílum.
    • Upphæð kílómetragjaldsins er í réttu hlutfalli af sliti viðkomandi bíls á vegakerfinu og útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
    • Kílómetragjald er innheimt af öllum ökutækjum sem nota vegakerfið.
    • Engan búnað þarf að setja upp til að innheimta kílómetragjald.
  • Innheimta vegatolla er kostnaðarsöm og mismunar fólki.
    • Innheimta vegatolla er hundraðfalt dýrari en innheimta kílómetragjalds.
    • Setja þarf upp nettengdan búnað til að skrá umferð og annast innheimtu.
    • Innheimtubúnað þarf að viðhalda og reka.
    • Innheimta vegatolla fer fram með svo margvíslegum hætti að umtalsverður hluti af álögunum felst í refsigjöldum fyrir að standa ekki skil.
    • Vegatollar á einstaka framkvæmdir á landsbyggðinni leggjast af fullum þunga á bíleigendur í nærumhverfinu og mismuna þannig eftir búsetu.
    • Vegatollar á höfuðborgarsvæðinu til að stýra umferðarþunga mismuna fólki eftir því hvar fólk býr og eru til þess fallnir að raska atvinnuháttum, búsetukostnaði og búsetuvali.