FÍB stefnir samkeppnisyfirvöldum vegna tryggingamála
07.05.2005
Málflutningur hófst núna kl. 9 í héraðsdómi Reykjavíkur í máli þrotabús Alþjóðlegrar miðlunar og FÍB gegn samkeppnisráði. Þrotabú Alþjóðlegrar miðlunar og FÍB krefjast þess að ákvarðanir áfrýjunarnefndar samkeppnismála og samkeppnisráðs árið 2004 vegna ólögmæts samráðs tryggingafélaganna í bifreiðatryggingum verði felldar úr gildi og málið tekið til rannsóknar á nýjan leik. Ástæðan er sú að þótt aðgerðir tryggingafélaganna hafi bitnað á FÍB og leitt til gjaldþrots Alþjóðlegrar miðlunar, þá var hvorugu félaginu leyft að vera málsaðili að rannsókn samkeppnisyfirvalda.
Í stefnu FÍB og þrotabús Alþjóðlegrar miðlunar segir að samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun hafi við meðferð rannsóknar á tryggingafélögunum brotið freklega gegn þeirri reglu samkeppnisyfirvalda nr. 922/2001 um rétt til að kynna sér málsgögn, sem og almennar reglur stjórnsýsluréttarins. Félögin fengu ekki stöðu sem aðilar að málinu né fengu þau að kynna sér frumathugun Samkeppnisstofnunar. Félögin telja að ef þau hefðu fengið aðild að málinu, þá hefðu margvíslegar upplýsingar komið fram sem hefðu leitt til annarar niðurstöðu samkeppnisráðs en raunin varð. Þau telja því að mikilvægum hagsmunum þeirra hafi verið fórnað. Ljóst megi vera að hin ætluðu samkeppnisbrot sem tryggingafélögin og SÍT frömdu beindust nánast eingöngu gegn þeim, enda ólíklegt að nokkur einstakur aðili annar geti sýnt fram á að hann hafi átt beinni hagsmuna að gæta vegna brotanna.
Með málshöfðun nú freista FÍB og þrotabú Alþjóðlegrar miðlunar þess að hnekkja ákvörðunum samkeppnisyfirvalda. Þau telja að niðurstaða tæplega 7 ára málsmeðferðar samkeppnisráðs hafi verið meingölluð og leitt til þess að tryggingafélögin sluppu refsilaust frá málinu þrátt fyrir þann skaða sem ólöglegar aðgerðir þeirra leiddu til.
Forsaga málsins er sú að FÍB beitti sér fyrir því árið 1996 að Alþjóðleg miðlun hóf að bjóða FÍB tryggingu í gegnum Lloyds í London með 30% lægri iðgjöldum en þá stóðu til boða. Íslensku tryggingafélögin höfðu áður lýst því í viðamiklum greinaflokki í Morgunblaðinu að ekki væri svigrúm til að lækka iðgjöld. Eftir að FÍB trygging kom til skjalanna lækkuðu íslensku félögin hins vegar iðgjöld sín og reyndu samtímis að torvelda samkeppnina með tæknilegum hindrunum og úrtölum í fjölmiðlum. Um 5% bifreiðaeigenda tóku FÍB tryggingu en hinir uggðu ekki að sér, létu sér vel líka verðlækkun gömlu tryggingafélaganna og sátu heima. Þessi stofn tryggingataka reyndist ekki nægilega stór til að standa undir FÍB tryggingu og fór svo að vátryggjandinn hjá Lloyd´s í London hætti starfsemi á íslenska bílatryggingamarkaðnum sem dró starfsemi Alþjóðlegar miðlunar í þrot. Eins og vænta mátti hækkuðu iðgjöld bílatrygginga verulega þá á nýjan leik.
Í framhaldi af fjölmörgum ábendingum FÍB og Alþjóðlegrar miðlunar hóf Samkeppnisstofnun rannsókn á samráði tryggingafélaganna árið 1997, meðal annars með húsleit hjá Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Íslenskri endurtryggingu. FÍB fylgdi málinu eftir með formlegri kæru árið 1999. Samkeppnisráð kynnti ákvörðun sína sumarið 2004 með 15 blaðsíðna skýrslu. Þar sagði að tryggingafélögin hefðu að flestu leyti hætt ólögmætu samráði og því væri ekki ástæða til frekar aðgerða. Tryggingafélögin voru heldur ekki beitt viðurlögum.
Í stefnu FÍB og þrotabús Alþjóðlegrar miðlunar er bent á ákveðna kaldhæðni í málflutningi samkeppnisyfirvalda. Samkeppnisráð og síðar áfrýjunarnefnd samkeppnismála héldu því fram í ákvörðunum sínum að Alþjóðleg miðlun ætti ekki lögvarða hagsmuni vegna þess að félagið hefði ekki starfað á vátryggingamarkaðnum frá október 2000. Ástæðan fyrir því að félagið starfaði ekki lengur var hins vegar sú að samkeppnisyfirvöld drógu meðferð málsins á langinn í tæplega 7 ár.
Við málflutning í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag munu af hálfu FÍB og Alþjóðlegrar miðlunar gefa skýrslur þeir Gísli Maack, Halldór Sigurðsson, Baldvin Hafsteinsson, Andri Árnason og Runólfur Ólafsson. Af hálfu Samkeppnisstofnunar hafa verið kvaddir til skýrslugjafar þeir Guðmundur Sigurðsson og Ásgeir Einarsson.
Lögmaður FÍB og þrotabús Alþjóðlegrar miðlunar er Stefán Geir Þórisson hrl.
Lögmaður samkeppnisráðs er Heimir Örn Herbertsson hdl.